Innlent

Kærir gæsluvarðhaldsúrskurð til Landsréttar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Árásin átti sér stað í heimahúsi á Neskaupstað aðfaranótt fimmtudags.
Árásin átti sér stað í heimahúsi á Neskaupstað aðfaranótt fimmtudags. Vísir/Vilhelm
Maðurinn sem grunaður er um alvarlega hnífstunguárás í Neskaupstað aðfaranótt fimmtudags mun kæra gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Landsréttar. Þetta staðfestir Gísli Auðbergsson verjandi mannsins í samtali við fjölmiðla í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá Jónasi Wilhelmssyni yfirlögregluþjóni á Austurlandi er hinn grunaði um þrítugt. Hann var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í héraðsdómi Austurlands í gær á grundvelli almannahagsmuna en hann er grunaður um tilraun til manndráps.

Lögregla hefur ekki rætt við manninn í dag en rannsókn málsins snýr nú aðallega að gagnasöfnun.

Þá hefur ekkert verið rætt við manninn sem varð fyrir árásinni síðan á vettvangi en hann gekkst undir aðgerð á Landspítalanum í Reykjavík og er líðan hans ágæt eftir atvikum. Jónas gerir ráð fyrir að rætt verði við hann aftur þegar hann hefur heilsu til.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×