„Ég valdi fjölskylduna mína og ég valdi landsliðið,“ segir Dagný sem skrifaði á dögunum undir samning við bikarmeistara Selfoss. Hún er flutt heim eftir sjö ára atvinnuferil og segir nýlokið tímabil hafa verið hennar langerfiðasta.
Fyrsta titlalausa árið síðan á fermingarárinu
Það vakti vægast sagt athygli á dögunum þegar Dagný skrifaði undir samning við Pepsi-max lið Selfoss. Heldur betur fengur fyrir þær vínrauðu en óumdeilanlega skref aftur á við frá því að standa vaktina á miðjunni með Portland Thorns í bandarísku atvinnumannadeildinni.Eftir að hafa hafið leiktíðina á varamannabekknum byrjaði Dagný alla leiki liðsins sem leiddi deildina lengi vel. Dagný fann sig í nýrri stöðu, aftarlega á miðjunni í stað framar. Liðið hafnaði í 3. sæti í deildinni og datt úr leik í undanúrslitum.

Byrjaði að æfa tíu dögum eftir fæðingu
Hún segist ekkert sérstaklega stolt af frammistöðu liðsins í lok tímabils en samt sem áður stolt af sjálfri sér.„Þetta fótboltaár var það allra erfiðasta fyrir mig. Að koma til baka og spila aftur með þeim bestu í heimi er það erfiðasta sem að ég hef nokkurn tímann gert. Allar mömmur eru ofurhetjur í mínum augum en afreksíþróttamömmur eru í guðatölu hjá mér eftir þessa reynslu!!“
Bensínið hafi algjörlega verið búið á tankinum eftir tímabilið, orkan úti bæði á líkama og sál en það sé tilfinning sem hún hafi aldrei áður fundið á ferlinum.
„Líkaminn hefur ekki verið eins hraustur og hann var í ár í langan tíma en eftir að hafa æft alla meðgönguna, misst vatnið um kvöldið eftir að hafa æft í hádeginu og byrjað að undirbúa líkamann aftur 10 dögum eftir fæðingu þá núna 2 árum seinna tók ég hvíldinni fagnandi.“

„Það kom líka alveg fyrir að ég fékk ekki frídag með fjölskyldunni í 24 daga vegna verkefna bæði með landsliðinu og Portland svo tíminn með strákunum mínum hefur verið vel nýttur frá því að tímabilið kláraðist.“
Virkilega erfið ákvörðun
Dagnýju, sem hefur verið algjör lykilmaður í kvennalandsliði Íslands undanfarin ár, er þakklæti ofarlega í huga gagnvart Portland Thorns fyrir að hafa haft trú á henni eftir barnsburð. Hjálpað henni að komast í fyrra form og fengið mikinn spiltíma, fyrir framan rúmlega 20 þúsund áhorfendur á heimaleikjunum á vesturströndinni.„ Þakklát fyrir að fá að spila enn eitt árið sem atvinnumaður þar sem flest allt er tipp topp. Það var því virkilega erfið ákvörðun fyrir mig að tilkynna þeim að ég ætla ekki að vera áfram hjá klúbbnum og spila með þeim á næsta ári.“

„Því miður er kvennaboltinn ekki kominn lengra en þetta. Dæmið gengur því miður bara ekki upp. Til þess að dæmið gekk upp hjá okkur í ár þá seldum við bílinn okkar, leigðum út 88 fermetra íbúðina okkar í Airbnb sem hún yndislega tengdamóðir mín sá um svo við ættum fyrir útborgun og Ómar tók 6 mánaða fæðingarorlof.“
KSÍ og kvennaboltinn ekki komin nógu langt
Þetta sé raunveruleiki kvenkyns atvinnumanns sem spili fyrir eitt besta félagslið í heimi.„Stærsta ákvörðunin var þó sú að ég er mamma og það er það skemmtilegasta í heimi sem að ég geri. Èg get ekki verið framúrskarandi mamma og bæði landsliðsmaður og atvinnumaður. Kvennaknattspyrnan og KSÍ eru ekki komin nógu langt til að dæmið gangi upp, því miður!“
Hún rifjar upp síðustu fimm mánuðina af nýloknu tímabili. Þar hafi hún samanlagt verið tvo mánuði fjarri um ársgömlum syni þeirra vegna ferðalaga með Portland Thorns og íslenska landsliðinu.

Hún hafi því þurft að velja á milli sonarins og landsliðsins. Hið síðarnefnda varð fyrir valinu en þar hafi hún þurft að sanna sig fyrir nýjum landsliðsjálfara, Jóni Þór Haukssyni og teymi hans.
Óhætt er að fullyrða að ákvörðun Dagnýjar að hætta að spila á meðal þeirra bestu sé áfall fyrir kvennalandsliðið. Dagný hefur spilað með liðinu í tæpan áratug, verið algjör lykilmaður enda á sama tíma spilað með frábæru háskólaliði vestanhafs, Bayern München í Þýskalandi og svo Portland Thorns í samnefndri borg á vesturströnd Bandaríkjanna.
Launin ekki nógu há
En þar sem hún hafi enga „afsökun“ til að taka barnið með sér í útileiki Portland á næsta tímabili eða í landsliðsverkefni hafi stefnt í að hún yrði fjarri syninum í fjóra mánuði yfir átta mánaða tímabil. Það sé eitthvað sem hún sé ekki tilbúin til að gera.„Ég vildi óska þess að launin væru nógu góð svo að ég gæti flogið þeim feðgum með mér í helming verkefnanna eða allavega syni mínum og það yrði reddað pössunarpíu. Því miður er það ekki þannig. Í dag er ómögulegt að vera íslensk knattspyrnukona og spila bæði með þeim bestu í heimi og íslenska landsliðinu. Ég valdi fjölskylduna mína og ég valdi landsliðið.“

Markið má sjá í spilaranum að neðan.
Hún segist hafa byrjað aðeins að æfa í vikunni en fari rólega af stað eftir nefbrot sem hún varð fyrir í byrjun október.
Næsti landsleikur Íslands í undankeppni EM 2021 er gegn Ungverjum ytra þann 10. apríl.