Enski boltinn

Liverpool liðið líkist meira og meira Man. United liði Ferguson: Með flest karakterstig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane fagnar sigurmarki sínu á móti Aston Villa um helgina.
Sadio Mane fagnar sigurmarki sínu á móti Aston Villa um helgina. Getty/Ian Cook

Liverpool er með flest karakterstig í ensku úrvalsdeildinni í vetur en liðið vann enn einn endurkomusigurinn um helgina.

Liverpool-liðið var 1-0 undir á móti Aston Villa um helgina þegar 86 mínútur voru liðnar af leiknum en tryggði sér öll þrjú stigin með tveimur mörkum í lokin. Það hefur verið saga Liverpool liðsins á síðustu vikum því liðið gerði þetta einnig á móti Leicester City, Tottenham og Manchester United.

Liverpool hefur nú alls fengið tíu stig út úr leikjum þar sem liðið hefur lent undir sem er það mesta í ensku úrvalsdeildinni til þessa í vetur. Liverpool hefur fengið þremur stigum meira en Leicester City sem er í öðru sætinu á þessum lista.
Manchester United og Chelsea reka hins vegar lestina ásamt Norwich en þessi þrjú lið eru þau eins sem hafa tapað öllum leikjum þar sem þau hafa lent undir. Manchester City fékk aftur á móti sín fyrstu stig í endurkomusigri sínum á móti Southampton um helgina.
 
Nick Miller, blaðamaður ESPN, kemst svo að orði í pistli sínum um helgina í enska boltanum að Liverpool lið Klopp líkist meira og meira Manchester United liði Sir Alex Ferguson.

„Ef þeir gerðu þetta einu sinni eða tvisvar þá væri hægt að halda því fram að lukkan væri í liði með Liverpool. Málið er að fjórum sinnum á síðasta mánuði þá hefur Liverpool skorað eftir 85. mínútu og tryggt sér annaðhvort jafntefli eða sigur,“ skrifaði Nick Miller í pistli sínum.  

Gullaldarlið Manchester United undir stjórn Sir Alex Ferguson átti það sameiginlegt með Liverpool liðinu í dag að koma margoft til baka í sínum leikjum. Það var erfitt að halda forystu á stigi á móti Manchester United liðinu svo við gleymum ekki að tala um svokallaðan Fergie-tíma.

United liðið skoraði nefnilega margoft undir blálok leikja þegar sumir vildu meina að tíminn væri runninn út. Sá tími fékk viðurnefnið Fergie-tími.

Liverpool liðið líkist vissulega liðum Ferguson hvað það varðar að liðið heldur gríðarlegri pressu á mótherja sína allan tímann og hún er aldrei meiri en þegar Liverpool þarf á stigi að halda á lokamínútunum.

Liverpool hefur náð í þessi karakterstig á lokamínútum síðustu leikja og er þess vegna enn með sex stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

„Liverpool mennirnir eru stórkostlegir og enska úrvalsdeildin er betri af því að hún inniheldur tvo súperlið sem munu síðan mætast um næstu helgi í leik sem enginn má missa af,“ bætti Miller við.

Flest karakterstig í ensku úrvalsdeildinni 2019-20:
(Stig úr leikjum þar sem liðið lendir undir)
1. Liverpool 10 stig
2. Leicester 7
3. Wolves 6
4. Arsenal 5
4. Tottenham 5
6. Brighton & Hove Albion 4
6. Crystal Palace 4
8. Manchester City 3
8. Sheffield United 3
8. Aston Villa 3
11. Burnley 2
12. AFC Bournemouth 1
12. West Ham 1
12. Newcastle 1
12. Everton 1
12. Southampton 1
12. Watford 1
18. Chelsea 0
18. Manchester United 0
18. Norwich City 0Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.