Innlent

Búist við stormi á Faxa­flóa­svæðinu og á Suður­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Á Faxaflóasvæðinu tekur viðvörunin gildi klukkan 19.
Á Faxaflóasvæðinu tekur viðvörunin gildi klukkan 19. vísir/vilhelm
Gular viðvaranir taka gildi á Suðurlandi og á Faxaflóasvæðinu síðdegis og í kvöld þar sem búist er við stormi og allt að 25 metrum á sekúndu.

Á Suðurlandi tekur viðvörunin gildi klukkan fjögur og verður hvassast undir Eyjafjöllum. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 metrum á sekúndu.

Á Faxaflóasvæðinu tekur viðvörunin gildi klukkan 19 og þar verður hvassast á Kjalarnesi, við Hafnarfjall og í uppsveitum Borgarfjarðar. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 metra á sekúndu, einkum á Kjalarnesi og við Hafnarfjall.

Varasamt getur verið að vera á ferðinni, sérstaklega fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind, þar sem hálka getur verið á vegum. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.

„Ekki mikil úrkoma með þessu og eins er hitinn nokkrum gráðum yfir frostmarki þannig að hálka á láglendi verður lítil sem engin. Lægir síðan um nóttina og á morgun, en á sunnudag gera spár ráð fyrir næstu lægð en nýjustu spár gera ráð stormi þá líka og jafnvel heldur hvassara en í dag. Hins vegar mun henni fylgja mun meiri úrkoma, aðallega rigning, en líkur eru á að bæði vindur og úrkoma fari yfir á nokkrum tímum yfir hádaginn,“ segir í tilkynningunni.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Suðaustan 8-15 m/s, hvassast á Suðausturlandi. Rigning eða slydda á láglendi á suðurhelming landsins, en yfirleitt hægari og þurrt á norðanverðu landinu. Hiti 1 til 5 stig, en um frostmark norðanlands.

Á sunnudag: Gengur í suðaustan storm, fyrst um landið SV-vert. Talsverð rigning og sums staðar slydda, en lengst af þurrt nyrðra. Lægir undir kvöld, en áfram hvasst A-til. Hiti 1 til 6 stig.

Á mánudag: Suðaustlæg átt og úrkoma A-til, en annars víða þurrt. Hiti nálægt frostmarki.

Á þriðjudag: Austan átt, él fyrir norðan og austan, en annars þurrt að kalla. Frost um mest allt land.

Á miðvikudag: Austan og síðar norðaustanátt. Él fyrir norðan og frost, en slydda syðst og hiti um frostmark.

Á fimmtudag: Útlit fyrir norðanátt með éljum um landið N-vert, en bjart á köflum syðra. Hiti breytist lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×