Erlent

Gagnrýnin kom Trump á óvart

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Evan Vucci

Gagnrýnin sem beindist að Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, vegna ákvörðunar hans að halda G7-fund næsta árs á golfklúbbi hans í Miami, kom honum á óvart. Þetta sagði Mick Mulvaney, starfandi starfsmannastjóri Hvíta hússins í dag. Mulvaney sagði einnig að Trump teldi sig enn vera í þeim bransa að taka vel á móti fólki.

Trump tilkynnti í gær að hann hefði hætt við að halda fundinn í Doral-klúbbnum og sagði ástæðuna vera „geðsjúkt og órökrétt mótlæti Demókrata og fjölmiðla“.

Í viðtali á Fox í dag sagði Mulvaney að mótætið hefði komið forsetanum á óvart. Hann hafi viljað taka á móti stærstu þjóðarleiðtogum heims og halda mikla hátíð. Trump hafi verið sannfærður um að það væri hægt í Doral.

Mulvaney bætti við að hann teldi ákvörðunina rétta.

G7-ríkin eru, auk Bandaríkjanna, Bretland, Frakkland, Ítalía, Kanada, Japan og Þýskaland.

Áðurnefnd gagnrýni sneri að mestu leyti að því að stjórnarskrá Bandaríkjanna bannar embættismönnum og kjörnum fulltrúum að taka við fé frá erlendum aðilum eða hinu opinbera í Bandaríkjunum án samþykkis þingsins.

Gagnrýnin kom þó ekki eingöngu frá Demókrötum og fjölmiðlum. Hún kom einnig frá þingmönnum Repúblikanaflokksins.

Alla forsetatíð Trump hefur hann verið gagnrýndur vegna áframhaldandi reksturs hans. Meðal annars ferðast hann reglulega til klúbba sem hann á og ver fríum þar og helgum, með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkið. Alls hefur hann farið rúmlega 300 sinnum til eigin fyrirtækja, samkvæmt Politico, sem vísar í opinberar tölur frá Hvíta húsinu.

Þá hafa erlendir erindrekar gist á hótelum hans, eins og í Washington DC. Tæknilega séð gæti það verið að taka við greiðslu frá erlendum aðilum og hinu opinbera, samkvæmt gagnrýnendum hans, og hafa mál verið höfðuð gegn honum vegna þessa.

Rannsókn Demókrata vegna mögulegrar ákæru gegn Trump fyrir embættisbrot snýr meðal annars að því hvort Trump sé að græða á forsetaembættinu. Til stóð að fulltrúadeild Bandaríkjaþings myndi greiða atkvæði um ályktunartillögu sem ætlað var að fordæma ákvörðun Trump að halda G7-fundinn í Miami. Búið er að hætta við þá atkvæðagreiðslu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.