Sterling fór mikinn er City slátraði Atalanta | Jafnt í Úkraínu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sterling fagnar einu af þremur mörkum sínum í kvöld.
Sterling fagnar einu af þremur mörkum sínum í kvöld. vísir/getty
Manchester City var ekki í miklum vandræðum með Atalanta í C-riðli Meistaradeildarinnar í kvöld, lokatölur á Etihad vellinum í Manchester 5-1 heimamönnum í vil. Þá gerðu Shakhtar Donetsk og Dinamo Zagreb 2-2 jafntefli í Úkraínu. Ruslan Malinovskyi kom gestunum frá Ítalíu óvænt yfir með marki úr vítaspyrnu á 28. mínútu eftir einstaklega klaufalegan varnarleik heimamanna. Sergio Agüero jafnaði metin sex mínútum síðar eftir sendingu Raheem Sterling. Á 38. mínútu var Agüero aftur á ferðinni, þá með marki úr vítaspyrnu.Rétt fyrir leikhlé virtist Rodri togna aftan í læri og inn í hans stað kom John Stones en enski varnarmaðurinn skartaði þessu líka fína glóðurauga. Meiðslin höfðu engin áhrif á City en leikmenn Atalanta virtust alveg sprungnir á því í síðari hálfleik. Sterling gerði sér svo lítið fyrir og skoraði þrennu á rúmum 11 mínútum í síðari hálfleik með mörkum á 58., 64. og 69. mínútu.Áður en leikurinn var úti nældi Phil Foden sér í tvö gul spjöld og þar með rautt. Það hafði þó ekki áhrif á lokatölur leiksins, 5-1 City í vil.Í Úkraínu gerðu Shakhtar Donetsk og Dinamo Zagreb 2-2 jafntefli.City sem fyrr á toppi deildarinnar með fullt hús stiga. Þar á eftir koma Shakhtar og Zagreb með fjögur stig hvort. Atalanta reka svo lestina en ítalska liðið á enn eftir að næla í stig í Meistaradeildinni í vetur.

Tengd skjöl

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.