Erlent

Íslendingar fluttir á sjúkrahús eftir hópárás

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Brighton á suðurströnd Englands.
Brighton á suðurströnd Englands. Getty/Anadolu
Tveir íslenskir ferðamenn voru fluttir á sjúkrahús eftir að ráðist var á þá í miðborg Brighton í Bretlandi, aðfaranótt laugardags. Staðarmiðlar í borginni segja hóp dökkklæddra manna hafa veist að Íslendingunum, barið þá og úðað óþekktu efni á andlit þeirra.Vitni urðu að árásinni sem gátu gefið lögreglu greinargóða lýsingu á hópnum sem að henni stóð. Lögreglumenn eiga að hafa hlaupið uppi tvo árásarmannanna, sem báðir eru sagðir 17 ára gamlir og grunaðir um alvarlega líkamsárás og brot á vopnalögum. Annar þeirra er aukinheldur sagður hafa haft fíkniefni og búnaði til innbrota í fórum sínum.Íslendingarnir tveir voru fluttir á Royal Sussex County-sjúkrahúsið í Brighton til aðhlynningar, þar sem gert var að andlitsáverkum þeirra. Þeir hafa nú verið útskrifaðir.Hinum handteknu var sleppt úr haldi gegn tryggingu og er gert að koma fyrir dómara þann 16. nóvember næstkomandi. Haft er eftir rannsóknarlögreglumanni á vef The Argus að þetta hafi verið „ógeðfelld árás á gesti borgarinnar,“ og biðlar hann til vitna um að gefa sig fram og aðstoða þannig lögreglu við rannsókn málsins.Veistu meira um málið? Sendu okkur póst á netfangið ritstjorn@visir.is

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.