Íslenski boltinn

Sigur ÍA sá stærsti í sögu Unglingadeildar UEFA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Annar flokkur ÍA hefur orðið Íslandsmeistari undanfarin tvö ár.
Annar flokkur ÍA hefur orðið Íslandsmeistari undanfarin tvö ár. mynd/ía
ÍA tryggði sér sæti í 2. umferð Unglingadeildar UEFA með stórsigri á Levadia Tallin, 1-12, í Eistlandi í gær. Skagamenn unnu fyrri leikinn á Akranesi, 4-0, og einvígið, 16-1 samanlagt.

ÍA er fyrsta íslenska liðið sem kemst áfram í Unglingadeild UEFA. Í 2. umferðinni mæta Skagastrákarnir Derby County frá Englandi.

ÍA braut ekki bara blað í íslenskri knattspyrnusögu í gær heldur var sigurinn sögulegur. Þetta var nefnilega stærsti sigur liðs í sögu Unglingadeildar UEFA sem var sett á laggirnar 2013.



Borussia Dortmund og Benfica áttu metið en þau unnu bæði tíu marka sigra. ÍA er jafnframt fyrsta liðið í sögu Unglingadeildar UEFA sem skorar tólf mörk í einum og sama leiknum. Þá hefur ekkert lið unnið jafn stóran sigur samanlagt í einvígi og ÍA gegn Levadia Tallin.

ÍA hefur orðið Íslandsmeistari í 2. flokki undanfarin tvö ár. Í sumar töpuðu Skagamenn ekki leik í A-deild 2. flokks. Þeir komust einnig í úrslit bikarkeppninnar þar sem þeir töpuðu fyrir Blikum í framlengingu, 3-4.

Fyrri leikur ÍA og Derby fer fram á Akranesi 6. nóvember. Seinni leikurinn verður á Englandi 27. nóvember.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×