Innlent

Eldur á svölum og vatnsleki milli hæða

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tvö útköll bárust slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu með stuttu millibili í kvöld, annað vegna vatnsleka en hitt vegna elds.
Tvö útköll bárust slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu með stuttu millibili í kvöld, annað vegna vatnsleka en hitt vegna elds. Vísir/vilhelm
Lið frá tveimur stöðvum slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kallað út vegna elds á svölum í Salahverfi í Kópavogi um klukkan hálf tíu í kvöld. Þá var slökkvilið einnig kallað út vegna vatnsleka í Breiðholti í kvöld.

Eldurinn kom upp á svölum íbúðarhúss og reyndist hafa kviknað út frá einhvers konar „kertabúnaði“, að sögn varðstjóra, en tjón varð mjög lítið og engan sakaði. Nágrannar tilkynntu um eldinn á níunda tímanum. Þegar á vettvang var komið reyndist um minniháttar atvik að ræða og gekk greiðlega að slökkva eldinn.

Um klukkustund áður, eða um klukkan hálf níu, var slökkvilið kallað út að fjölbýlishúsi í Hólahverfi í Breiðholti vegna vatnsleka, þar sem vatn lak á milli hæða. Slökkviliðsmenn unnu að því í um klukkutíma að hreinsa vatnið upp, skrúfa fyrir vatn í húsinu og koma því svo aftur á. Ekki er talið að mikið tjón hafi orðið vegna lekans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×