Erlent

Sam­þykktu þriggja mánaða frestun Brexit

Atli Ísleifsson skrifar
Breska þinghúsið í London.
Breska þinghúsið í London. Getty
Aðildarríki Evrópusambandsins hafa samþykkt að fresta útgöngu Bretlands úr ESB um þrjá mánuði, eða til 31. janúar 2020.

Þetta staðfesti Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, í morgun. Tusk staðfesti að sambandið myndi heimila „sveigjanlega framlengingu“ (e. „flextention“), sem þýðir þá að Bretland gæti gengið úr sambandinu fyrr, fari svo að útgöngusamningur verði samþykktur af breska þinginu.

Breskir þingmenn munu í dag greiða atkvæði um tillögu Boris Johnson forsætisráðherra um að boða til þingkosninga þann 12. desember næstkomandi. Skoski þjóðarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn hafa lagt til að kosningar fari fram 9. desember.

 

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hafði þrýst á að veita breskum stjórnvöldum skemmri frest, en leiðtogar fjölda aðildarríkja hafa verið þessu mótfallin af ótta við að slíkt kunni að auka líkur á samningslausri útgöngu.

Upphaflega stóð til að Bretland myndi ganga úr sambandinu þann fimmtudaginn, en Johnson verður að samþykkja frestunina í samræmi við samþykkt þingsins þar um.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×