Erlent

Samþykktu þingkosningar 12. desember

Kjartan Kjartansson skrifar
Tillagan Johnson var samþykkt eftir að Verkamannaflokkurinn lét af andstöðu sinni við að flýta kosningum.
Tillagan Johnson var samþykkt eftir að Verkamannaflokkurinn lét af andstöðu sinni við að flýta kosningum. Vísir/EPA
Neðri deild breska þingsins samþykkti tillögu Boris Johnson, forsætisráðherra, um að halda þingkosningar 12. desember. Tillagan var samþykkt með 438 atkvæðum gegn tuttugu. Lávarðadeild þingsins á enn eftir að samþykkja tillöguna en búist er við því að hún gæti verið endanlega samþykkt fyrir lok vikunnar.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að Johnson vonist til þess að leysa úr þrátefli sem hefur ríkt á þingi varðandi útgönguna úr Evrópusambandinu. Þingið hefur ítrekað fellt útgöngusamninga við Evrópusambandið en einnig samþykkt lög til að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin dragi Bretland úr sambandinu án slíks samnings.

Eftir að Evrópusambandið féllst á að fresta útgöngunni til loka janúars lét Verkamannaflokkur Jeremys Corbyn af andstöðu við það að flýta kosningum en fyrri tillögur Johnson þess efnis höfðu verið felldar ítrekað.

Samþykki lávarðadeildin tillöguna um kosningar tekur við fimm vikna kosningabarátta þar sem Íhaldsflokkur Johnson virðist standa best að vígi í skoðanakönnunum.

Áður en atkvæðagreiðslan fór fram í kvöld hleypti Johnson 21 þingmanni Íhaldsflokksins sem hann rak í haust aftur inn í þingflokkinn. Johnson hafði vísað þeim á dyr fyrir að greiða atkvæði gegn honum um Brexit. Með ákvörðuninni nú geta þingmennirnir áfram boðið sig fram fyrir Íhaldsflokkinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×