Íslenski boltinn

Breiðablik mætir stjörnum prýddu liði PSG

Hjörvar Ólafsson skrifar
Blikar fagna marki.
Blikar fagna marki. mynd/getty
Breiðablik fær verðugt verkefni í dag þegar liðið leikur fyrri leik sinn við franska liðið PSG í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á Kópavogsvelli. Meðal leikmanna í Parísarliðinu eru dönsku landsliðsframherjarnir Nadia Nadim og Signe Bruun. Formiga sem lék á sínu sjöunda heimsmeistaramóti í sumar með Brasilíu og varð elsti markaskorarinn í sögu mótsins leikur einnig með PSG.

Þá eru fimm franskir landsliðsmenn í leikmannahópi PSG auk fjölmargra annarra landsliðskvenna en félagið hefur staðið í skugganum af Lyon sem er stórveldi í frönskum kvennafótbolta. Annað sætið í frönsku efstu deildinni er besti árangur PSG.

„Þetta er klárlega stærsti leikur sem ég og aðrir leikmenn liðsins höfum spilað á ferlinum. Það er gríðarlega gaman að lengja tímabilið með svona stóru og spennandi verkefni,“ sagði Berglind Björg Þorvaldsdóttir, framherji Blika.

„Það er mikil spenna í okkar herbúðum en mér finnst spennustigið vera gott og leikmenn rólegir og yfirvegaðir þrátt fyrir umfang leiksins. Við gerum okkur grein fyrir að verkefnið verður erfitt en við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að ná í hagstæð úrslit,“ segir Berglind.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×