Íslenski boltinn

Fengu ellefu stig í síðustu fimmtán leikjunum: „Skagamenn voru of nískir“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jóhannes Karl Guðjónsson og strákarnir hans í ÍA enduðu í 10. sæti Pepsi Max-deildarinnar.
Jóhannes Karl Guðjónsson og strákarnir hans í ÍA enduðu í 10. sæti Pepsi Max-deildarinnar. vísir/bára
Eftir frábæra byrjun nýliða ÍA í Pepsi Max-deildinni hallaði heldur betur undan fæti er líða fór á sumarið og þeir enduðu í 10. sæti Pepsi Max-deildarinnar.

Eftir sex umferðir voru Skagamenn á toppi deildarinnar með þrettán stig en tap gegn ÍBV á útivelli setti strik í reikninginn.

Skagamenn fengu sitt sextánda stig í 2-0 sigri á Stjörnunni þann 26. maí en í síðustu fimmtán leikjum tímabilsins fengu Skagamenn einungis ellefu stig.

Þeir unnu tvo leiki eftir sigurinn gegn Stjörnunni það sem eftir lifði tímabilsins og gerðu fimm jafntefli. Í uppgjörsþætti Pepsi Max-markanna fengu nýliðarnir sex fyrir frammistöðu sína í sumar.

„Það er yfirleitt þannig að fyrsta markmið liða sem koma upp er að halda sér uppi. Skagamenn komu inn í mótið af fítóns krafti og voru með sextán stig í byrjun júní,“ sagði Logi Ólafsson.

„Mér fannst þetta lofa mjög góðu en þeir voru að leita að mönnum. Jóhannes Karl vildi fá fleiri menn inn í þetta,“ bætti Logi við og hélt áfram að tala um styrkingu Skagamanna:

„Þar sem þeir tapa á er að það vantar breidd. Mér skilst að þeir sem stjórna peningunum töldu að það þyrfti ekki því þeir voru rosalega góðir í allan vetur og fram í júní,“ en Skagamenn komust í úrslit Lengjubikarsins í vetur.

Hörður Magnússon, þáttarstjórnandi, spurði Loga hvort að Skagamenn hefðu einfaldlega verið of nískir í félagaskiptaglugganum.

„Þeir voru það. Arnór Sigurðsson var seldur til Rússlands og mér skilst að Skagamenn hafi fengið 50 milljónir. Þeir höfðu efni á því að kaupa menn og breikka hópinn. Það eru allt of mikil göt í þessu.“

Alla umræðuna um Skagamenn má sjá hér að neðan.



Klippa: Pepsi Max-mörkin: Umræða um tímabil hjá ÍA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×