Erlent

Sek um morð á stjúpsyninum

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Ana leidd úr dómshúsinu í Almeria.
Ana leidd úr dómshúsinu í Almeria. Nordicphotos/Getty
Ana Julia Quezada var í gær fundin sek um að hafa myrt stjúpson sinn í febrúar á síðasta ári. Fórnarlambið var hinn 8 ára Gabriel Cruz, sonur Angel Cruz, þáverandi sambýlismanns hennar. Ana hlaut lífstíðardóm, án möguleika á reynslulausn í að minnsta kosti 25 ár, sem er hámark refsilöggjafarinnar.

Gabriel hvarf þann 27. febrúar í fyrra eftir heimsókn til ömmu sinnar, nálægt borginni Almeria, og hófst leit um allan Spán. Hundruð sjálfboðaliða tóku þátt og athygli var vakin á hvarfi Gabriels undir myllumerkinu #TodosSomos­Gabriel, eða „við erum öll Gabriel“. Ana, sem er frá Dóminíska lýðveldinu, tók þátt í leitinni og ræddi tárvot við fréttamenn.

Þann 3. mars fór lögregluna að gruna að maðkur væri í mysunni eftir að hún sagðist hafa fundið bol Gabriels á stað sem búið var að kemba tvisvar. Þann 11. mars fannst lík Gabriels í skotti bifreiðar hennar.

Dánarorsök Gabriels var köfnun og Ana viðurkenndi fyrir dómi að hafa valdið dauða hans. Hún sagðist þó hafa kæft hann fyrir slysni þegar hún var að reyna að þagga niður í honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×