Erlent

Fundu lík þrettán flóttakvenna í Miðjarðarhafi

Kjartan Kjartansson skrifar
Líkkistur flóttafólks á hafnarbakkanum á ítölsku eyjunni Lampedusa í dag.
Líkkistur flóttafólks á hafnarbakkanum á ítölsku eyjunni Lampedusa í dag. Vísir/EPA
Ítalska strandgæslan fann lík þrettán kvenna sem drukknuðu í Miðjarðarhafi þegar yfirfullum báti flótta- og förufólks hvolfdi í vondu veðri undan ströndum Lampedusa. Tuttugu og tveimur var bjargað en óttast er að fleiri gætu hafa farist.

Bátnum hvolfdi í þann mund sem björgunarskip nálguðust hann skömmu eftir miðnætti í nótt, að sögn ítalskra yfirvalda. Reuters-fréttastofan hefur eftir konu sem var bjargað að hún hefði misst systur sína og átta mánaða gamla frænku.

Talið er að báturinn hafi lagt upp frá Túnis með um fimmtíu manns um borð. Nærri allir um borð hafi verið frá Túnis og Vestur-Afríku, að sögn flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Stofnuni áætlar að um þúsund manns hafi farist á Miðjarðarhafi það sem af er ári. Flestir þeirra voru fólk sem reyndi að flýja óöldina í Líbíu og komast til Evrópu.

Innanríkisráðuneyti Ítalíu segir að tæplega átta þúsund manns hafi komist þangað með bát á þessu ári. Það er 63% fækkun frá sama tímabili í fyrra og 93% fækkun frá því árið 2017. Yfirvöld á Ítalíu hafa meðal annars reynt að fæla flótta- og förufólk frá með því að samþykkja ströng lög sem beinast meðal annars að björgunarskipum hjálparsamtaka.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.