Erlent

Átök á tveimur vígstöðvum

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Johnson kennir Evrópusambandinu um.
Johnson kennir Evrópusambandinu um. Nordicphotos/Getty
Eins og búist var við tóku leiðtogar Evrópusambandsríkjanna fálega í tillögur Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, um útgöngusamning. Samning sem hann hefur kallað lokaboð. Heimildarmaður innan Downingstrætis 10 varð vitni að hávaðarifrildi Johnsons og Angelu Merkel Þýskalandskanslara í gegnum síma, þar sem landamæri Norður-Írlands voru enn einu sinni ásteytingarsteinninn.

Stjórn Johnsons og Evrópusambandið keppast nú við að klína sökinni hvort á annað. Andstæðingar Johnsons heima fyrir halda því fram að engin alvara hafi verið að baki tilboðinu og bak við tjöldin sé unnið að samningslausri útgöngu. Þetta hafi verið augljóst eftir að DUP, flokkur sambandssinna á Norður-Írlandi, og öfgafullir útgöngusinnar í Íhaldsflokknum tóku vel í tilboðið.

Á meðan er tekist á um Benn-löggjöfina svokölluðu í dómsölum Skotlands, sem skylda á Johnson til að sækja um frest. Fyrir helgi vísaði dómari frá beiðni Joönnu Cherry, þingmanns Skoska þjóðarflokksins og tveggja forstjóra, um að þvinga Johnson til að fylgja löggjöfinni. Treysta yrði loforðum stjórnarinnar um að halda lögin. Í gær var tekist á um hvort dómstólarnir sjálfir gætu tekið fram fyrir hendurnar á Johnson, og sent beiðni um útgöngufrest ef hann gerði það ekki þann 19. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×