Erlent

Jon Ola Sand kveður Euro­vision

Atli Ísleifsson skrifar
Jon Ola Sand hefur komið að Eurovision í um tuttugu ár.
Jon Ola Sand hefur komið að Eurovision í um tuttugu ár. Getty

Norðmaðurinn Jon Ola Sand hyggst láta af störfum sem framkvæmdastjóri Eurovision, Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, eftir keppnina sem fram fer í Rotterdam á næsta ári. Hann hefur gegnt stöðunni frá árinu 2011.

Á vef Eurovision segir að EBU, Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva, muni nú hefja leit að arftaka Sand.

Sand hyggst snúa aftur til heimalandsins Noregs næsta sumar þar sem hann mun gegna starfi hjá norska ríkissjónvarpsins NRK við að við framfylgja framtíðarstefnu stofnunarinnar.

Í samtali við Eurovision.tv segir hann síðastliðinn áratug hjá EBU hafa verið stórkostlegan og spennandi en að það verði gott að komast aftur heim.

Sand hefur komið að Eurovision í um tuttugu ár, fyrst sem fararstjóri norska keppnishópsins, svo framkvæmdastjóri keppninnar í Osló 2010 og loks framkvæmdastjóri keppninnar sjálfrar síðastliðin níu ár.





via GIPHY




Fleiri fréttir

Sjá meira


×