Íslenski boltinn

Rúnar: Vissum frá upphafi að við ættum möguleika

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Íslandsmeistarinn Rúnar Kristinsson.
Íslandsmeistarinn Rúnar Kristinsson. vísir/daníel
„Bara ofboðslega vel. Við erum mjög glaðir með að fá bikarinn í hendurnar í dag, að spila mjög góðan leik og sýna að við erum með frábært lið,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari Íslandsmeistara KR að loknum 3-2 sigri þeirra á FH. Eftir sigurinn fengu KR-ingar svo Íslandsmeistarabikarinn í hendurnar eftir að hafa verið yfirburðar lið í  Pepsi Max deildinni í sumar. 

„Það er erfitt fyrir alla en við töluðum vel saman í vikunni, æfðum vel, fórum vel yfir FH liðið og hvað við ætluðum að gera í leiknum. Það er númer 1,2 g 3 að við vitum nákvæmlega hvað við ætlum að gera. Við framkvæmdum það mjög vel þó það hafi verið smá doði fyrstu tíu mínúturnar af leiknum en við rifum okkur fljótt upp og tókum völdin í þessum leik,“ sagði Rúnar um hvernig það væri sem þjálfari að gíra sig upp í og undirbúa leik þar sem þú veist að titill fer á loft að honum loknum sama hvað gerist. 

Varðandi sumarið þá hafði Rúnar alltaf trú á að KR gæti landað þeim stóra.

„Við vissum frá upphafi að við ættum möguleika en við vissum líka að væru fjögur önnur lið sem gætu það líka. Við vildum bara vera með í baráttunni og eiga möguleika á að vinna þetta þegar fram kæmi í síðustu umferð. Svo gerist það að við erum búnir að vinna þetta örlítið fyrr og það er bara bónus, gott og gaman.“ 

Rúnar hélt áfram.

„Stundum spilum við þannig að við þurfum að vinna leikinn, sama hvernig við gerum það. Það er ekki alltaf einhver fancy fótbolti heldur förum við í grunngildin og berjumst þegar á þarf að halda en oftast spilum við flottan fótbolta eins og við sýndum hér í dag.“ 

„Frábært að fá að taka á móti titlinum hérna á heimavelli fyrir framan stuðningsmenn okkar sem eru margir þegar okkur gengur vel. Það er þá bara okkar að sjá til þess að það séu alltaf margir á vellinum með því að spila góðan fótbolta, ná í úrslit og lyfta bikurum,“ sagði Íslandsmeistarinn Rúnar Kristinsson að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×