Fótbolti

Bayern hótar að sniðganga þýska landsliðið ef Neuer verður settur á bekkinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ter Stegen og Neuer eru engir perluvinir.
Ter Stegen og Neuer eru engir perluvinir. vísir/getty
Uli Hoeness, forseti Bayern München, segir að leikmenn félagsins muni ekki gefa kost sér í þýska landsliðið ef Marc-André ter Stegen verður gerður að aðalmarkverði þess í stað Manuels Neuer.

Ter Stegen og Neuer hafa deilt að undanförnu en sá fyrrnefndi er orðinn þreyttur á að vera varamarkvörður fyrir Neuer sem er jafnframt fyrirliði þýska landsliðsins.

Neuer er ekkert á því að gefa sæti sitt í þýska liðinu eftir og Bayern stendur þétt við bakið á sínum manni.

„Ef þetta gerist sniðgöngum við landsliðið. Við munum aldrei samþykkja að gerðar verði breytingar á markvarðastöðunni,“ sagði Hoeness.

Joachim Löw, þjálfari Þýskalands, henti þremur stjörnuleikmönnum Bayern úr landsliðinu í fyrra; Jérome Boateng, Thomas Müller og Mats Hummels sem leikur núna með Borussia Dortmund.

Í síðasta landsliðshópi Löws voru fimm leikmenn frá Bayner; Neuer, Nicklas Süle, Joshua Kimmich, Leon Goretzka og Serge Gnabry.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×