Erlent

Alelda togari farinn á hliðina í Tromsø

Atli Ísleifsson skrifar
Eldurinn kom upp í gærmorgun.
Eldurinn kom upp í gærmorgun. AP
Rússneskur togari sem lá við landfestar í Breivika-höfninni í Tromsø í Norður-Noregi fór á hliðina í morgun. Gríðarlegur eldur hafði þá logað í togaranum Bukhta Naezdnik síðan klukkan 11 að staðartíma í gærmorgun.

Búið var að rýma stórt svæði með um 300 metra radíus, vegna sprengihættu. Á fréttamannafundi lögreglu í gærkvöldi kom fram að einnig hafi komið til greina að sökkva bátnum til að kæla hann, en að ákveðið hafi verið að grípa frekar til þeirra aðgerða að rýma svæðið.

Um borð í skipinu er að finna stór ammoníaktankur sem skapaði mikla sprengjuhættu og gerir raunar enn. Talið er að um 200 þúsund lítrar af dísilolíu séu um borð í skipinu og er unnið að því að koma í veg fyrir að olían leki út.

Svona var staðan á togaranum í gær.AP

Tókst að bjarga öllum í áhöfn

Viðbúnaðarstigi var komið á á sjúkrahúsi í Tromsø, en lokanir hafa skapað vandræði fyrir starfsfólk til að mæta til vinnu. Íbúar í grennd við höfnina voru hvattir til að loka gluggum vegna reyksins sem lagði frá togaranum.

Eftir að eldurinn kom upp tókst að bjarga öllum 29 í áhöfn skipsins, en tólf voru færðir á sjúkrahús vegna gruns um að þeir hafi orðið fyrir reykeitrun. Ekki liggur fyrir um upptök eldsins.

Bukhta Naezdnik var smíðað í Noregi árið 1991, er 64 metrar að lengd og þrettán metra breitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×