Innlent

Marglytturnar loksins lagðar af stað yfir Ermarsundið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sigurlaug María Jónsdóttir reið á vaðið og fór af stað í morgun, fyrst Marglyttanna. Hér sést hún á sundi í Ermarsundinu í morgunsárið.
Sigurlaug María Jónsdóttir reið á vaðið og fór af stað í morgun, fyrst Marglyttanna. Hér sést hún á sundi í Ermarsundinu í morgunsárið. Mynd/Aðsend
Fyrsta Marglyttan, sundkonan Sigurlaug María Jónsdóttir, lagði af stað frá Dover á Englandi um klukkan hálf sjö í morgun. Sund Marglyttanna yfir Ermarsundið, sem hefur þurft að fresta ítrekað vegna veðurs undanfarna daga, er þannig formlega hafið.

Framundan er 34 kílómetra boðsund til Cap Gris Nez í Frakklandi sem er ein helsta siglinga- og flutningaleið í Evrópu. Marglytturnar, sem hafa undirbúið sundið í tvö ár, hafa beðið í sex daga eftir hagstæðum skilyrðum til að leggjast til sunds en auk veðurs þurfa sjávarföll, vindar, ölduhæð og straumar að vera hagstæð. Sú er loksins raunin nú.

Áætlað er að sundið muni taka sex sundkonur Marglyttanna um 16-18 tíma. Hver Marglytta mun synda tvisvar til þrisvar sinnum í fyrirfram ákveðinni röð.

Fiskibáturinn Rowena fylgir Marglyttunum eftir alla leið til Frakklands og sinnir jafnframt eftirliti með skiptingum sundkvennanna. Boðsundið þarf að fylgja settum reglum til þess að verða staðfest sem fullgilt sund af samtökum um sund yfir Ermarsundið, The English Channel Association. 

„Við erum fullar tilhökkunar eftir viku bið og veðurglugginn sem við fáum er frábær. Það verður gaman að byrja snemma morguns og synda í birtu langleiðina yfir Ermarsundið, upplifunin verður betri og notalegri en að synda að nóttu í myrkri, þó að við hefðum alveg verið tilbúnar í það líka. Skipstjórarnir okkar eru þaulvanir sjómenn sem þekkja Ermarsundið vel og við treystum þeim fullkomlega,“ er haft eftir Sigurlaugu Maríu, fyrstu sundkonunni, í tilkynningu frá Marglyttunum.

„Það hefur verið yndislegt og hvetjandi að fá allar þessar góðu kveðjur sem okkur hafa borist til Dover undanfarna viku. Við erum auðmjúkar, þakklátar, stoltar og tilbúnar í þessa áskorun.“ 

Fylgjast má með staðsetningu Marglyttanna í rauntíma á kortinu hér fyrir neðan.



Markmið Marglyttanna með sundinu er að vekja athygli á þeirri alvarlegu umhverfisvá sem felst í plastmengun í hafinu, að því er segir í tilkynningu. 

„Á sjósundsæfingum sínum hér í Dover hafa Marglytturnar fengið að bragða á sjónum og er hann vægast sagt mikið mengaður. Það verður mikil þrekraun fyrir sundkonurnar að synda í gegnum þá olíuflekki sem er að finna í Ermarsundinu auk sjávardýra.“

Marglyttur hvetja landsmenn, einstaklinga sem og fyrirtæki, að styðja við boðsundið yfir Ermarsundið þannig að hægt verði að safna fjárhæð fyrir Bláa herinn. Hægt er að styðja Marglyttur í AUR-appinu í síma 7889966 og með því að leggja inn á reikning 0537-14-650972, kt. 250766-5219 (í nafni Grétu Ingþórsdóttur). Allar upplýsingar um boðsundið eru á Facebook-síðu Marglytta.

Marglytturnar spenntar fyrir sundið.Mynd/Aðsend
 

 

Skipting undirbúin um borð í bátnum.Mynd/Aðsend

Tengdar fréttir

Vilja komast í sjóinn í dag

Sundkonur í Marglyttunum, sem ætla að synda yfir Ermasundið, vonast til að geta lagt af stað síðdegis í dag. Skipuleggjandi segir að Marglytturnar hafi verið mjög svekktar þegar sundið var flautað af í nótt vegna veðurs. Þær hafi ólmar viljað komast í sjóinn þrátt fyrir að sterkur vindur hafi tekið á móti þeim á höfninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×