Innlent

Fáklæddur ferðamaður í háskaleik við Skógafoss

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Færsla Noru McMahon hefur vakið mikla athygli og umtal í Facebook-hópnum Iceland Q&A. Myndirnar af manninum sjást í skjáskoti af færslunni.
Færsla Noru McMahon hefur vakið mikla athygli og umtal í Facebook-hópnum Iceland Q&A. Myndirnar af manninum sjást í skjáskoti af færslunni. Skjáskot/Facebook
Erlendur ferðamaður vakti athygli fyrir einkar glæfralega hegðun við Skógafoss í gærkvöldi. Myndir náðust af manninum þar sem hann stendur fáklæddur við brún fossins. Eigandi ferðaþjónustufyrirtækis sem varð vitni að atvikinu í gær segir að lítið hefði mátt út af bregða til að illa færi fyrir ferðamanninum.

Nora McMahon birti fyrst myndir af atvikinu í Facebook-hópnum Iceland Q&A í gær. „Hvað sem þú gerir, þegar þú heimsækir Ísland, ekki vera þessi hálfviti,“ skrifar Nora við myndina. Myndum Noru var síðar deilt áfram í Facebook-hópnum Baklandi ferðaþjónustunnar. Hátterni ferðamannsins vakti töluverða hneykslan í báðum hópum.

Hér að neðan má sjá umræddar myndir á Instagram-reikningi McMahon.

Örlygur Örlygsson, sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Travice, var staddur við Skógafoss um sjöleytið í gær þegar ferðamaðurinn greip til uppátækisins. Örlygur segir í samtali við Vísi að honum hafi brugðið við að sjá manninn, sem var staddur við fossinn ásamt samferðafólki sínu.

Fólkið virðist hafa komið að fossinum á bílaleigubíl og þá telur Örlygur að þau hafi öll verið bandarísk.

„Hann stóð bara á brúninni. Ef það hefði verið smásteinn á brúninni þá hefði hann farið niður,“ segir Örlygur, sem vatt sér þvínæst upp að manninum og spurði hann út í háttalagið. Ætlunin hafi greinilega verið að ná spennandi myndum úr Íslandsferðalaginu.

„Hann sagði að þetta skipti ekki máli því að lífið er allt áhætta. Ég gat ekkert sagt, var bara mjög hissa á þessu.“

Örlygur segir að maðurinn hafi komist klakklaust niður á jafnsléttu, þar sem hann hafi einnig farið á bak við fossinn ásamt samferðafólki sínu. Lögreglan á Suðurlandi hafði ekki heyrt af atvikinu þegar fréttastofa hafði samband í dag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.