Erlent

Taka niður umdeilda styttu

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Mótmælt við styttuna af Konev.
Mótmælt við styttuna af Konev. Nordicphotos/Getty
Borgarráð í Prag ákvað á fimmtudag að taka niður styttu af sovéska herforingjanum Ivan Konev. Styttan hefur verið umdeild og margsinnis unnin á henni skemmdarverk.

Konev, sem lést árið 1973, var einn af æðstu mönnum rauða hersins. Hann leiddi herdeildir sem frelsuðu Tékkóslóvakíu undan nasistum í maí árið 1945 og árið 1980 var styttan af honum reist.

Eftir að járntjaldið féll árið 1989 varð styttan umdeild. Rifjað var upp að Konev hefði tekið þátt í að bæla niður uppreisnina í Ungverjalandi árið 1956 og komið að því að Berlínarmúrinn var reistur árið 1961. Þá vilja sumir meina að hann hafi komið að því að bæla niður uppreisnina í Tékkóslóvakíu 1968.

Margsinnis hefur málningu verið slett á styttuna og mótmæli verið haldin við hana. Ný stytta verður reist á staðnum til minningar um frelsunina en ekki Konev.

Sendiráð Rússlands mótmælti ákvörðuninni harkalega og vonast eftir því að styttunni verði fundinn annar staður. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×