Íslenski boltinn

Fjölnir kominn upp í Pepsi Max-deildina og staða Gróttu góð | Njarðvíkingar fallnir og Þróttarar í vondum málum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fjölnismenn fagna.
Fjölnismenn fagna. vísir/bára

Fjölnir er kominn upp í Pepsi Max-deild karla eftir eins árs fjarveru. Fjölnismenn gerðu 1-1 jafntefli við Leiknismenn í 21. og næstsíðustu umferð Inkasso-deildarinnar í dag. Fjölni dugði jafntefli til að endurheimta sæti sitt í Pepsi Max-deildinni.

Ingibergur Kort Sigurðsson kom Fjölni yfir á 77. mínútu en Gyrðir Hrafn Guðbrandsson jafnaði sex mínútum síðar.


Staða Gróttu er afar góð. Liðið vann Njarðvík, 1-2, og er með þriggja stiga forskot á Leikni í 2. sæti deildarinnar. Seltirningum dugir jafntefli gegn Haukum í lokaumferðinni til að komast upp í efstu deild í fyrsta sinn.

Atli Geir Gunnarsson kom Njarðvík yfir á 32. mínútu en aðeins mínútum síðar jafnaði Valtýr Már Michaelsson fyrir Gróttu. Pétur Theodór Árnason skoraði svo sigurmark gestanna á 59. mínútu.

Njarðvíkingar eru sjö stigum frá öruggu sæti og þar með fallnir eftir tveggja ára veru í Inkasso-deildinni.

Magni kom sér upp úr fallsæti með sigri á Þrótti R., 3-1, á Grenivík. Gauti Gautason, Kian Williams og Guðni Sigþórsson skoruðu mörk Magnamanna sem hafa unnið fjóra af síðustu sex leikjum sínum.

Þetta var sjötta tap Þróttara í röð en þeir eru í ellefta og næstneðsta sæti deildarinnar með 21 stig. Sindri Scheving skoraði mark Þróttar sem er einu stigi á eftir Haukum, Aftureldingu og Magna sem eru öll með 22 stig.

Kristófer Dan Þórðarson skoraði tvö mörk fyrir Hauka sem unnu Keflavík, 3-1. Aron Freyr Róbertsson var einnig á skotskónum. Kristófer Dan hefur skorað fimm mörk í síðustu tveimur leikjum Hauka sem eru aðeins stigi frá fallsæti þrátt fyrir tvo sigra í röð.

Rúnar Þór Sigurgeirsson skoraði mark Keflvíkinga sem eru í 7. sæti deildarinnar. Þeir hafa tapað tveimur leikjum í röð.

Víkingur Ó. bar sigurorð af Aftureldingu í Mosfellsbænum, 0-1. Harley Willard skoraði eina mark leiksins. Afturelding er enn í mikilli fallhættu en Víkingur siglir lygnan sjó í 6. sæti deildarinnar.

Þá vann Fram 3-0 sigur á Þór í Safamýrinni. Helgi Guðjónsson skoraði öll mörk Fram sem er í 4. sæti deildarinnar, einu sæti ofar en Þór sem hefur tapað þremur leikjum í röð.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.