Íslenski boltinn

Hefur ekki gerst í 49 ár en gæti gerst á Hlíðarenda í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KR dansa hér sigurdans þegar þeir urðu síðast Íslandsmeistarar 2013.
KR dansa hér sigurdans þegar þeir urðu síðast Íslandsmeistarar 2013. fréttablaðið/stefán

KR-ingar verða Íslandsmeistarar á heimavelli fráfarandi Íslandsmeistara með sigri á Hlíðarenda í kvöld.

Valur hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn undanfarin tvö tímabil en það er löngu orðið ljóst að Valsmenn vinna hann ekki þriðja árið í röð. Baráttan stendur þess í stað á milli KR og Breiðabliks og þar er staða KR-inga talsvert betri.

KR-ingar hafa sjö stiga forskot á Blika og verða Íslandsmeistari með sigri á Val á Hlíðarenda í kvöld en leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður í beinni á Stöð 2 Sport.

KR getur þar orðið fyrsta liðið í 49 ár til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli ríkjandi Íslandsmeistara. Það gerðist síðast í september 1970.

Skagamenn urðu Íslandsmeistarar 1970 eftir 2-1 sigur á Keflavík í næstsíðustu umferðinni. Guðjón Guðmundsson skoraði þá sigurmarkið fimm mínútum fyrir leikslok. Mikill áhugi var fyrir leiknum, óformlegum úrslitaleik um titilinn, og Akraborgin sigldi meðal annars beint frá Akranesi til Keflavíkur í aðdraganda leiksins.

Keflavík hafði orðið Íslandsmeistari sumarið 1969 undir stjórn hins 28 ára gamla þjálfara Hólmberts Friðjónssonar. Keflavíkurliðið var í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn við Skagamenn bæði þessi tímabil en liðin skiptu á milli sín titlunum.

Skagamenn komust í 1-0 með marki Eyleifs Hafsteinssonar í upphafi leiksins sem var spilaður á Keflavíkurvelli 12. september 1970 en nokkrum mínútum síðar náði Magnús Torfason að jafna metin. Sextán mínútur liðnar og staðan 1-1. Þannig stóðu leikar þar til á 85. mínútu þegar Eyleifur og Guðjón spiluðu sig í gegnum Keflavíkurvörnina og Guðjón skoraði sigurmarkið mikilvæga.

Guðjón var vissulega hetja Skagamanna en mikið munaði um Eyleif Hafsteinsson sem ÍA hafði endurheimt eftir fjögurra ára veru hjá KR. Eyleifur var maðurinn á bak við bæði mörkin, skoraði þar fyrra en lagði upp það síðara. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar fréttir úr dagblöðunum eftir þennan leik.

KR-ingar geta leikið þetta eftir í kvöld og orðið fyrstu Íslandsmeistararnir í 49 ár sem tryggja sér titilinn á heimavelli fráfarandi meistara.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.