Íslenski boltinn

Jóhannes Karl svekktur hvernig KR kom inn í síðari hálfleikinn og fannst dómarinn flautuglaður

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jóhannes Karl var líflegur í kvöld eins og svo oft áður.
Jóhannes Karl var líflegur í kvöld eins og svo oft áður. vísir/vilhelm
„Það var engin launing að við ætluðum að vera ansi þéttir til baka í fyrri hálfleiknum og mér fannst það heppnast vel því KR-ingarnir spörkuðu boltanum út af ansi oft þó þeir væru í fínni stöðu. Það sem skilur að eftir fyrri hálfleik er hvað dómarinn [Einar Ingi Jóhannesson] var flautuglaður og mér fannst hann ekki höndla þetta nægilega vel“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfara Skagamanna, eftir 2-0 tap ÍA gegn KR í Vesturbænum.

 

Jóhannes Karl var ekki hættur að ræða dómara leiksins.

„Hann gaf KR-ingum aukaspyrnur á það sem mér fannst vera alvöru tæklingar sem eiga að eiga sér stað í fótboltaleikjum en dómarinn flautaði á allt fyrir KR-ingana í fyrri hálfleiknum. Það er það sem skilur að og svo undir lok leiks erum við að reyna jafna og Kiddi [Kristinn Jónsson] skorar undramark, vel gert hjá honum reyndar.“

 

Í kjölfarið var Jóhannes spurður út í línuna sem Einar Ingi lagði í dag en leikir KR og ÍA hafa oftar en ekki verið mjög líflegir í gegnum árin.

„Ég veit ekki hvort dómarinn hafi aldrei horft á KR-ÍA hérna áður en ég skyldi ekki línuna sem hann var að leggja með aukaspyrnunum sem hann gaf KR-ingum í fyrri hálfleik. Þeir hentu sér niður á hættulegum stöðum og fengu aukaspyrnur sem mér fannst alltof soft.“

 

„Við vissum alltaf að það yrði erfitt að koma hingað í Vesturbæinn að spila á móti KR. Þeir gera mjög vel sem þeir eru að gera og ná marki í fyrri hálfleik með frábærum gæðum hjá Óskari Erni Haukssyni en eins og ég kom inn á áðan þá fá þeir gefins aukaspyrnuna,“ sagði Jóhannes um leik dagsins.

 

Hann hélt áfram.

„Eftir markið reyna þeir ekki að spila fótbolta og ég er pínu svekktur yfir því hvernig KR kom inn í seinni hálfleikinn. Verðandi Íslandsmeistarar, reynið að spila smá fótbolta fyrir fólkið ykkar í seinni hálfleik og mér fannst það vera skrýtið þar sem KR er með fullt af frábærum fótboltamönnum,“ sagði Jóhannes Karl að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×