Íslenski boltinn

Rúnar Kristinsson fimmtugur í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar á góðri stund.
Rúnar á góðri stund. vísir/daníel
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR og leikjahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi, fagnar 50 ára afmæli í dag.



Rúnar og strákarnir hans í KR eru með sjö stiga forskot á toppi Pepsi Max-deildar karla þegar þrjár umferðir eru eftir.

Vinni KR Val á Hlíðarenda mánudaginn 16. september verður liðið Íslandsmeistari í þriðja sinn undir stjórn Rúnars. KR-ingar tryggðu sér einmitt síðasta Íslandsmeistaratitil sinn, fyrir sex árum, á Hlíðarenda.

Rúnar hefur einnig gert KR að bikarmeisturum í þrígang. Hann stýrði KR fyrst á árunum 2010-14 og tók svo aftur við uppeldisfélaginu fyrir síðasta tímabil.

Rúnar er sá eini sem hefur leikið 100 leiki eða fleiri fyrir karlalandslið Íslands.mynd/hilmar þór
Rúnar lék 104 landsleiki á árunum 1987-2004 og skoraði þrjú mörk. Hann er sá eini sem hefur leikið 100 leiki eða fleiri fyrir karlalandsliðið. Hann hefur átt leikjamet þess í 20 ár.

Rúnar hóf að leika með meistaraflokki KR 1986 og lék með liðinu til 1994. Það tímabil varð KR bikarmeistari eftir sigur á Grindavík, 2-0, í úrslitaleik. Rúnar skoraði annað mark KR-inga sem unnu þar sinn fyrsta stóra titil í 26 ár.

Hann lék með Örgryte í Svíþjóð um tveggja ára skeið (1995-97) en færði sig svo um set til Lillestrøm í Noregi. Þar lék hann til 2000. Rúnar lék í sjö ár við góðan orðstír hjá Lokeren í Belgíu áður en hann kom heim og lauk ferlinum með KR 2007.

Rúnar þjálfaði Lillestrøm 2014-16 og svo Lokeren 2016-17 áður en hann kom aftur heim.

Rúnar hefur unnið fimm stóra titla sem þjálfari KR.vísir/vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×