Innlent

Hefur litlar áhyggjur af því að ákvarðanir hans muni sprengja ríkisstjórnina

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. FBL/Anton Brink
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra hefur litlar áhyggjur af því að ákvarðanir hans um friðlýsingar muni valda stjórnarslitum. Segir Guðmundur að ákvarðanir hans séu byggðar á lögum og fullyrðingar Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, séu á misskilningi byggðar.

Jón Gunnarsson ritaði grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun þar sem hann var afar harðorður í garð Guðmundar Inga.

Sagði hann aðferðafræði Guðmundar við friðlýsingar ekki standa skoðum og hann fari ekki eftir lögum í þeirri útfærslu sem hann boðar.

„Ég get ekki séð að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins getum stutt stjórnarsamstarf sem fer fram með þessum hætti. Það er best að gera grein fyrir því strax,“ segir Jón.

„Þetta er náttúrlega misskilningur það hefur verið farið að sjálfsögðu að lögum. Það er engum blöðum um það að flétta. Við erum að fara að lögum og þeim lögskýringargögnum sem eru þar að baki,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við Vísi.

„Bæði mat verkefnisstjórnar og faghópa miðað auðvitað við þetta. Ég vil líka taka fram að sumar af þessum tillögum sem við höfum verið að senda út í samráð hafa tekið einhverjum breytingum líka í samráðsferlinu þar sem bent var á eitthvað sem betur mætti fara eins og alltaf er,“ bætir Guðmundur Ingi.

Spurður hvort hann ætli sér að ræða málið við Jón segist Guðmundur ekki búinn að íhuga það eins og er.

Hann hefur engar áhyggjur af því að þetta mál muni sprengja ríkisstjórnarsamstarfið.

„Svo erum við að fá nýjan liðsmann í ríkisstjórnina, unga og kraftmikla konu, sem ég hlakka til að eiga samstarf við,“ segir Guðmundur Ingi og á þar við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, nýskipaðan dómsmálaráðherra.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.