Íslenski boltinn

Fram hafði betur í Laugardalnum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Framarar fögnuðu sigri í kvöld.
Framarar fögnuðu sigri í kvöld. vísir/ernir
Þróttur Reykjavík heldur áfram að tapa leikjum í Inkassodeild karla en Þróttarar töpuðu fimmta leiknum í röð í kvöld.

Þróttur tók á móti Fram á Eimskipsvellinum í Laugardal í kvöld í slag liða sem sitja um miðja deild í Inkasso deildinni.

Gestirnir úr Safamýrinni fengu upplagt tækifæri til þess að komast yfir á 23. mínútu þegar vítaspyrna var dæmd á Þrótt. Arnar Darri Pétursson felldi Helga Guðjónsson í teignum og vítaspyrna dæmd.

Arnar bætti fyrir brotið með því að verja spyrnuna frá Helga.

Aðeins fjórum mínútum seinna komst Fram þó yfir þegar Hilmar Freyr Bjartþórsson skallaði boltann í netið og var það eina markið í fyrri hálfleik.

Í seinni hálfleik varð róðurinn þyngri fyrir heimamenn þegar Archie Nkumu var sendur af velli með sitt seinna gula spjald á 63. mínútu.

Þrátt fyrir það náðu röndóttir að jafna metin, Róbert Hauksson skoraði á 78. mínútu.

Jökull Steinn Ólafsson varð hetja Framara þegar hann skoraði sigurmark leiksins á 84. mínútu. Lokatölur í Laugardal urðu 2-1 fyrir Fram.

Eins og áður segir var þetta fimmti tapleikur Þróttar í deildinni í röð og þeir sitja áfram í 8. sæti deildarinnar með 21 stig. Framarar fara upp í sjötta sætið með 30 stig með sigrinum.

Upplýsingar um úrslit og gang mála eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×