Innlent

Skriðan kom niður á sama stað og tveir ferðamenn slösuðust í gær

Jóhann K. Jóhannsson og Andri Eysteinsson skrifa
Úr Reynisfjöru í gær.
Úr Reynisfjöru í gær. Vísir/Jóhann K.

„Þetta er á nákvæmlega sama stað og tveir einstaklingar urðu fyrir meiðslum í gær, nákvæmlega á þessum stað þar sem skriðan féll, þar stóð hópur fólks,“ segir Sigurður Sigurbjörnsson, varðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurlandi sem kom fyrstur á vettvang í Reynisfjöru en fjörunni var í gær lokað vegna grjóthruns. Stærðarinnar skriða féll svo í fjöruna snemma í morgun, eins og Vísir hefur greint frá.

Sigurður var eins og áður segir fyrstur á vettvang í Reynisfjöru.

„Þegar ég kem hérna, þá sé ég að stóri hluti úr fjallinu hefur fallið niður í fjöruna við drangana og niður í sjó fram og sjórinn brúnlitaður þannig að þetta hefur gerst snemma í morgun,“ segir Sigurður. „Þetta er á nákvæmlega sama stað og tveir einstaklingar urðu fyrir meiðslum í gær, nákvæmlega á þessum stað þar sem skriðan féll, þar stóð hópur fólks. Það er fólk hérna alls staðar, allan daginn í fjörunni.“

Sigurður Sigurbjörnsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi. Vísir/Jói K.

Reynisfjara er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins en ófáar fréttir af óförum ferðamanna hafa borist úr fjörunni á síðustu árum. Sigurður segir að enn falli grjót úr hlíðinni.

„Það er bara á meðan ég er að tala við þig, að þá er ég að horfa á grjót hrynja úr sárinu þannig að þetta er ekkert alveg búið,“ segir Sigurður og bætir við, „Við komum til með að vera í sambandi við sérfræðinga hjá Veðurstofunni og það er allt í vinnslu.“

Svæðinu var lokað í gærkvöld eftir að ferðamenn slösuðust vegna grjóthruns en eitthvað bar á því að vegfarendur virtu lokanir lögreglu að vettugi. Sigurður telur líklegt að reynt verði að halda svæðinu lokuðu næstu daga.

„Já ég held að það sé ekkert vit í öðru. Við reynum að gera okkar besta í að halda þessu lokuðu en það er svolítið erfitt þegar Atlantshafið lemur á öllum lokunum. Við gerum okkar besta,“ segir Sigurður Sigurbjörnsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.