Íslenski boltinn

Leikmaður Víkinga valinn í landslið Síerra Leóne

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kwame Quee.
Kwame Quee. Vísir/Vilhelm
Einn leikmaður í Pepsi Max deild karla fer í langa keppnisferð til Afríku í byrjun næsta mánaðar.

Kwame Quee, leikmaður Víkinga í Pepsi Max deild karla, er í leikmannahópi landsliðs Síerra Leóne fyrir leiki í undankeppni HM 2022. Víkingar hafa fengið boð frá knattspyrnusambandi Afríkuríkisins að Kwame Quee sé í hópnum að þessu sinni.

Quee verður væntanlega ekki eini leikmaður Víkings sem verður upptekinn í landsliðsverkefni en búast má við því að Kári Árnason verði áfram í íslenska landsliðinu.

Kwame Quee kom til Víkinga á láni frá Breiðabliki en hann er með eitt mark og eina stoðsendingu í sjö deildarleikjum með Víkingi í sumar.

Kwame Quee mátti ekki spila í undanúrslitaleiknum í bikarnum á móti Breiðabliki en skoraði fyrir Blika í sigri á HK í bikarleik í lok maí. Quee verður væntanlega með Víkingum í bikarúrslitaleiknum á móti FH.

Kwame Quee hefur leikið fjórtán landsleiki fyrir Síerra Leóne.

Síerra Leóne mætir Líberíu i tveimur leikjum í landsleikjahléi í september, sá fyrri fer fram í Monroviu í Líberú 4. september en sá síðari í Freetown í Síerra Leóne fjórum dögum síðar.

Sigurvegarinn úr þessum tveimur leikjum tryggir sér sæti í undankeppninni þar sem eru spilaðir tíu fjögurra liða riðlar þar sem ein þjóð úr hverjum riðli tryggir sig inn á HM í Katar 2022.

Kwame Quee er ekki eini Víkingurinn í landsliði Síerra Leóne því Ibrahim Sorie Barrie úr Inkasso-liði Víkings úr Ólafsvík er einnig í hópnum að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×