Íslenski boltinn

Pepsi Max mörkin: Þegar Óli virðist hafa fundið lykilinn breytir hann öllu og maður skilur ekkert

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Þjálfari FH virðist ekki vera með sitt besta lið á hreinu að mati Þorkels Mána
Þjálfari FH virðist ekki vera með sitt besta lið á hreinu að mati Þorkels Mána vísir/vilhelm

FH stillti upp sínu besta miðvarðarpari á sunnudaginn að mati sérfræðinga Pepsi Max markanna á Stöð 2 Sport en óvíst sé hvort þjálfarateymi FH hafi áttað sig á því.

FH vann sterkan 3-2 sigur á Val á Hlíðarenda á sunnudagskvöld og fór með sigrinum upp í þriðja sæti Pepsi Max deildarinnar. Ólafur Kristjánsson stillti upp Pétri Viðarssyni og Guðmanni Þórissyni í miðvarðarstöðunum í leiknum.

„FH-ingarnir voru að spila með besta miðvarðarparið sem þeir eru með í boði,“ sagði sérfræðingurinn Þorkell Máni Pétursson í þætti gærkvöldsins.

„Ég er skíthræddur um að fyrst ég segi þetta núna þá breyti Óli Kristjáns því í næsta leik og FH-ingarnir verða brjálaðir út í mig.“

„Þeir í þessum leik voru báðir frábærir, þeir vega upp hvorn annan og voru þarna eins og tveir stríðsmenn allan tímann. Þegar það gengur illa hjá FH-liðinu þá er Pétur Viðarsson alltaf maðurinn sem á að fara fyrst inn í liðið.“

Máni var hins vegar ekki sannfærður um að Ólafur Kristjánsson og félagar í þjálfarateyminu væru búnir að átta sig á því að þetta væri besta uppstillingin.

„Oft finnst mér Óli alveg vera búinn að finna lykilinn að Nangijala eins og hann er að leita að og vera alveg með þetta. Þá hugsar maður að hann sé búinn að finna lykilinn og þetta verði frábært núna, en svo kemur hann í næsta leik og er búinn að breyta öllu og maður skilur ekkert hvert hann er að fara.“

Alla umræðuna úr Pepsi Max mörkunum má sjá hér að neðan.

Klippa: Pepsi Max mörkin: FH búið að finna besta miðvarðarparið



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.