Íslenski boltinn

Þróttur skoraði sjö mörk í þriðja sinn í síðustu fjórum leikjum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Margrét Sveinsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Þrótt í Kópavoginum.
Margrét Sveinsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Þrótt í Kópavoginum. mynd/þróttur

Þróttur R. og FH, efstu lið Inkasso-deildar kvenna, unnu bæði sína leiki í kvöld. Fátt virðist geta komið í veg fyrir að þau leiki í Pepsi Max-deildinni á næsta tímabili.

Þróttur rúllaði yfir Augnablik, 1-7, á Kópavogsvelli. Þetta er í þriðja sinn í síðustu fjórum leikjum sem Þróttarar skora sjö mörk. Þeir hafa unnið sex leiki í röð og eru með eins stigs forskot á FH-inga á toppi deildarinnar.

Margrét Sveinsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Þrótt og Lauren Wade, Andrea Rut Bjarnadóttir, Jelena Tinna Kujundzic, Linda Líf Boama og Katrín Rut Kvaran sitt markið hver. Þróttarar hafa skorað langflest mörk allra í deildinni, eða 56 í 13 leikjum.

Ásta Árnadóttir, fyrrverandi landsliðskona, skoraði mark Augnabliks sem er 8. sæti deildarinnar með 14 stig, tveimur stigum frá fallsæti.

FH lagði Grindavík að velli, 3-0, í Kaplakrika. Birta Georgsdóttir, Valgerður Ósk Valsdóttir og Aldís Kara Lúðvíksdóttir skoruðu mörk FH-inga sem eru í 2. sæti deildarinnar, einu stigi á eftir Þrótturum.

Grindvíkingar, sem hafa ekki unnið í sjö leikjum í röð, eru í 7. sætinu með 14 stig.

Eftir þrjá leiki í röð án sigurs vann Tindastóll Fjölni, 0-1, á útivelli. Murielle Tiernan skoraði eina mark leiksins þegar tíu mínútur voru eftir. Hún er næstmarkahæst í deildinni með 15 mörk.

Tindastóll er í 3. sæti deildarinnar með 22 stig, tíu stigum á eftir FH. Fjölnir er í níunda og næstneðsta sæti deildarinnar með tólf stig.

Sierra Marie Lelii skoraði tvö mörk þegar Haukar báru sigurorð af Aftureldingu, 2-3. Vienna Behnke var einnig á skotskónum hjá Haukum sem eru komnir upp í 4. sætið eftir fimm sigra í síðustu sex leikjum.

Hafrún Rakel Halldórsdóttir og Darian Powell skoruðu mörk Mosfellinga sem eru í 5. sæti deildarinnar.

Þá vann ÍA 1-0 sigur á botnliði ÍR á Akranesi. Bryndís Rún Þórólfsdóttir skoraði eina mark leiksins á 55. mínútu.

Þetta var fyrsti sigur Skagakvenna síðan 19. júní. Þær eru með 16 stig í 6. sæti deildarinnar. ÍR-ingar eru enn með sitt eina stig á botninum.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.