Erlent

Mældu geislavirkni í Noregi eftir sprenginguna í Rússlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Skilti við æfingarsvæði rússneska hersins við þorpið Njonoksa í norðvestanverðu Rússlandi.
Skilti við æfingarsvæði rússneska hersins við þorpið Njonoksa í norðvestanverðu Rússlandi. AP/Sergei Yakovlev

Geislavarnir Noregs greina geislavirkt joð sem mældist í lofti í norðanverðu landinu nærri landamærunum að Rússlandi dagana eftir sprengingu sem kostaði fimm vísindamenn lífið þar í síðustu viku. Rússar hafa litlar upplýsingar gefið um sprenginguna.

Í fyrstu sögðu rússnesk yfirvöld að slys hefði orðið við prófanir á eldflaugarhreyfli með fljótandi eldsneyti á æfingarsvæði hersins nærri borginni Severodvinsk í norðanverðu Rússlandi á fimmtudag fyrir viku. Síðar sagði kjarnorkustofnun Rússlands að sprenging hefði orðið í litlum kjarnaofni og að fimm vísindamenn hennar hefðu látið lífið. Yfirvöld bönnuðu skipaumferð um Dvinaflóa í Hvítahafi í mánuð vegna slyssins.

Loftsíur á Svanahöfða í Norður-Noregi við landamærin að Rússlandi tóku upp geislavirkt joð dagana eftir sprenginguna, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Slíkt er þó ekki óvanalegt á þeim slóðum. Geislavirkt joð finnst þar sex til átta sinnum á ári, yfirleitt frá óþekktum uppsprettum.

„Eins og stendur er ekki hægt að ákvarða hvort að greiningin á joði tengist slysinu í Arkhangelsk í síðustu viku. Geislavarnir halda áfram að taka sýni oftar og greina þau,“ segir í yfirlýsingu geislavarna Noregs.

Pútín forseti þegar hann sagði frá nýrri langdrægi stýriflaug í mars í fyrra. Vísir/EPA

Tvennum sögum fer af því hvort að þorp í grennd við sprenginguna í Rússlandi hafi verið rýmd. AP-fréttastofan segir að íbúar í þorpin Njonoksa nærri æfingarsvæði hersins hafi verið beðnir um að yfirgefa heimili sín. Herinn hafi síðan dregið rýminguna til baka. Igor Orlov, ríkisstjóri Arkhangelsk-héraðs, sagði síðar að það væri fáránlegt að því hafi verið haldið fram að íbúar hefðu verið beðnir um að yfirgefa heimili sín.

Veðurstofa Rússlands sagði í vikunni að geislun við Severodvinsk hafi aukist allt að sextánfalt eftir sprenginguna. Geislunin náði þó ekki gildum sem væru hættuleg mönnum. TASS-fréttastofan rússneska segir að engu síður hafi heilbrigðisstarfsmenn sem önnuðust fórnarlömb slyssins verið sendir til Moskvu til læknisrannsóknar.

Grunur leikur á að sprengingin hafi orðið við tilraunir með nýja tegund kjarnaknúinnar stýriflaugar sem Vladímír Pútín Rússlandsforseti stærði sig af að gæti náð til allra heimshorna fyrr á þessu ári.


Tengdar fréttir

Geislun margfaldaðist eftir sprenginguna í Rússlandi

Mælingar veðurstofu Rússlands á geislun í Severodvinsk stangast á við yfirlýsingar varnarmálaráðuneytisins um að engin aukning hafi orðið í geislun eftir sprengingu á æfingarsvæði hersins í síðustu viku.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.