Íslenski boltinn

Það fyrsta sem Ragna Lóa sagði í vetur var við værum að fara í bikarúrslitin

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Þórunn Helga Jónsdóttir fagnaði bikarmeistaratitli með KR árið 2008. Hún getur lyft titlinum sem fyrirliði liðsins á Laugardalsvelli um helgina.
Þórunn Helga Jónsdóttir fagnaði bikarmeistaratitli með KR árið 2008. Hún getur lyft titlinum sem fyrirliði liðsins á Laugardalsvelli um helgina. vísir

KR getur orðið bikarmeistari í fyrsta sinn í ellefu ár þegar liðið mætir Selfossi í úrslitum Mjólkurbikars kvenna á Laugardalsvelli á laugardag.

Þórunn Helga Jónsdóttir, fyrirliði KR, segir spennuna vera farna að magnast í vesturbænum.

„Þetta er stærsti leikur ársins svo það eru allir mjög spenntir,“ sagði Þórunn á blaðamannafundi KSÍ í dag.

„Hann leggst vel í okkur. Við byrjuðum ekkert allt of vel í deildinni svo þetta var okkar séns á að vinna titil.“

„Við erum með einn mjög titlagráðugan þjálfara, mögulega tvo reyndar en ég er að tala um Rögnu Lóu [Stefánsdóttur] núna, í vetur þegar hún tók við hópnum og kom inn í klefa, ég held það hafi verið áður en hún kynnti sig, þá sagði hún bara við erum að fara í bikarúrslitin og það er bara þannig.“

KR-liðið náði að fylgja eftir skipunum Rögnu Lóu og komast í bikarúrslitin. Nú þarf liðið að leggja Selfoss að velli til þess að fagna titlinum í fyrsta sinn síðan árið 2008.

„Ég spilaði leikinn [2008] og svo spilaði Hólmfríður Magnúsdóttir hann líka. Við Hólmfríður höfum spilað nokkra bikarúrslitaleiki saman, bæði hérna á Íslandi og í Noregi, svo það verður gaman að mætast í þetta skiptið,“ sagði Þórunn en Hólmfríður skoraði þrennu fyrir KR í úrslitaleiknum 2008. Hún hefur farið á kostum með Selfossi í sumar.

„Ég elska KR, hef alltaf viljað að KR vinni titla og mun alltaf vilja. Það er heiður að fá að taka þátt í svona stórum degi sem leikmaður,“ sagði Þórunn Helga.

Bikarúrslitaleikurinn er á Laugardalsvelli á laugardaginn, 17. ágúst, og hefst hann klukkan 17:00. Hann verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsending hálftíma fyrir leik. Fyrir þá sem ætla að mæta á völlinn vill KSÍ hvetja fólk til þess að kaupa miða fyrir fram á tix.is.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.