Íslenski boltinn

Alfreð: Við munum nota reynsluna í Hólmfríði

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Alfreð Elías Jóhannsson
Alfreð Elías Jóhannsson vísir
Alfreð Elías Jóhannsson getur orðið fyrstur til þess að stýra liði Selfoss til bikarmeistaratitils þegar hann mætir með sínar stúlkur gegn KR í úrslitaleik Mjólkurbikars kvenna á morgun, laugardag.

„Það er komin mikil spenna í liðið og bæjarfélagið, mikil tilhlökkun og spenna,“ sagði Alfreð á blaðamannafundi KSÍ fyrir leikinn á morgun.

Selfoss hefur farið tvisvar í bikarúrslitaleikinn, árin 2014 og 2015. Báðir leikirnir voru gegn Stjörnunni og báðir töpuðust.

„Allt er þegar þrennt er, það er bara svoleiðis.“

„Við erum með sex leikmenn í liðinu sem hafa reynslu af því að tapa í úrslitaleik og þær hafa gert það tvisvar. Síðan erum við með eina sem hefur unnið þrisvar, hana Fríðu [Hólmfríði Magnúsdóttur].“

„Við munum nota þessa reynslu vel og nýta hana.“

Selfoss og KR mættust fyrir rúmum mánuði síðan í deildinni þar sem Selfoss vann 1-0 sigur. Hvernig leik býst Alfreð við að fá á Laugardalsvelli?

„Ég býst við skemmtilegum leik. Þetta eru tvö mjög áþekk lið, KR-ingar heldur betur að spila betur og betur, þetta verður skemmtilegur leikur.“

„Frábær leikur til að fara á fyrir fjölskyldumeðlimi hvort sem það eru Selfyssingar eða KR-ingar eða hvaðan sem það er. Ég hvet fólk endilega til þess að koma.“

En er Alfreð kominn með lykilinn að því að sigra KR? „Ég legg bara upp leikinn, stelpurnar spila.“

„Við þjálfararnir erum bara á línunni og leyfum þeim að njóta þessa augnabliks að spila þennan leik. Þær munu gera okkur Selfyssinga stolta, pottþétt,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson.

Bikarúrslitaleikurinn er á Laugardalsvelli á morgun, laugardaginn 17. ágúst, og hefst hann klukkan 17:00. Hann verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsending hálftíma fyrir leik. Fyrir þá sem ætla að mæta á völlinn vill KSÍ hvetja fólk til þess að kaupa miða fyrir fram á tix.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×