Erlent

Af­þakkar boð Ísraels­ríkis vegna hug­sjóna

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Rashida Tlaib afþakkaði boð Ísraelsríkis um að ferðast til Vesturbakkans.
Rashida Tlaib afþakkaði boð Ísraelsríkis um að ferðast til Vesturbakkans. getty/Chip Somodevilla

Bandaríska þingkonan Rashida Tlaib hefur afþakkað boð Ísraelsríkis um að leyfa henni að ferðast til Vesturbakkans, þar sem amma hennar býr. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Tlaib segir að hún geti ekki hundsað kúgunina sem verið sé að beita í Ísrael.

Henni hafði verið bannað að ferðast til Ísrael í opinberum erindagjörðum en hún hefur opinberlega gagnrýnt stefnu ísraelskra stjórnvalda gagnvart Palestínumönnum. Þá tilkynntu yfirvöld Ísrael í dag að hún fengi að ferðast til landsins í persónulegum tilgangi ef hún samþykkti að hvetja ekki til sniðgöngu á Ísrael á meðan hún væri í landinu.

Rashidu Tlaib (t.v.) og Ilhan Omar (t.h.) hefur verið meinað landvistarleyfi í Ísrael. getty/Mark Wilson

Ástæða þess að yfirvöld í Ísrael veittu Tlaib sérstakt landvistarleyfi er sú að henni og annarri bandarískri þingkonu, Ilhan Omar, hafði verið bannað að koma til landsins á fimmtudag vegna þrýstings frá Donald Trump, Bandaríkjaforseta. Hann hafði hvatt ísraelsk stjórnvöld að refsa þeim en þær eru báðar múslimar og demókratar.

Sjá einnig: Ísraelar snúa við ákvörðun um aðra þingkonuna

Þingkonurnar tvær hugðust heimsækja Vesturbakkann á sunnudag en ísraelsk stjórnvöld tilkynntu í gær að þær fengju ekki að koma og vísuðu til stuðnings þeirra við sniðgöngu á Ísrael vegna hernámsins á landsvæðum Palestínumanna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.