Erlent

Leiðtogi stjórnarflokks Póllands fordæmir gleðigöngur

Kjartan Kjartansson skrifar
Kaczynski og félagar í Lögum og réttlæti beina spjótum sínum nú í auknum mæli að hinsegin fólki. Áður barðist flokkurinn helst gegn innflytjendum og flóttafólki.
Kaczynski og félagar í Lögum og réttlæti beina spjótum sínum nú í auknum mæli að hinsegin fólki. Áður barðist flokkurinn helst gegn innflytjendum og flóttafólki. Vísir/EPA
Jaroslaw Kaczynski, leiðtogi Laga og réttlætis, íhaldsflokksins sem stýrir Póllandi, fordæmir gleðigöngur þar sem krafist er réttinda hinsegin fólks og segir Pólverjar verða að streitast gegn þeim. Flokkurinn elur nú á andúð á hinsegin fólki til að tryggja sér endurkjör í kosningum í haust.

Þegar Lög og réttlæti komst fyrst til valda var það meðal annars vegna baráttu flokksins gegn innflytjendum og flóttafólki. Í aðdraganda þingkosninga sem fara fram 13. október hefur flokkurinn ákveðið að gera réttindi hinsegin fólks að skotspóni sínum til að laða að stuðnings íhaldssamra kjósenda.

„Harða atlagan, þessi ferðasirkus sem birtist í fjölda borga til að ögra og gráta svo…við erum þau sem verðum fyrir skaða af þessu, það verður að afhjúpa þetta og vísa frá,“ sagði Kaczynski í lautarferð á vegum flokksins í bænum Stalowa Wola í dag.

Sagði hann að framfylgja þyrfti lögum til þess ítrasta „til að koma reglum yfir þetta“ án þess að skýra frekar hvað hann ætti við, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Málflutningur stjórnarflokksins er studdur af kaþólsku kirkjunni í Póllandi. Erkibiskup kirkjunnar sagði fyrr í þessum mánuði að „regnbogaplága“ baráttufólks fyrir réttindum hinsegin fólks sæti nú um Pólland. Líkti hann þeim við leiðtoga Kommúnistaflokksins sem áður réði ríkjum í landinu.

Kaczynski sagði Lög og réttlæti eina flokkinn sem gæti komið kaþólsku kirkjunni til varnar fyrir árásum á „fjölskyldugildi“ frá vesturlöndum.

Stjórnarandstæðingar hafa deilt á stjórnarflokkinn fyrir að ýta undir ofbeldi gegn hinsegin fólki undanfarnar vikur. Ráðist var á þátttakendur í gleðigöngu í borginni Bialystok í síðasta mánuði.


Tengdar fréttir

Þátttakendur grýttir í gleðigöngu

Haldin var fyrsta Gleðiganga pólsku borgarinnar Bialystok á laugardag en hún vakti hörð viðbrögð. Um þúsund manns tóku þátt í göngunni sem fékk fylgdarlið óeirðalögreglu vegna viðbragða öfgahægrimanna í borginni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.