Erlent

Broadway-goðsögn lést í Reykjavík

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Harold Prince var 91 árs þegar hann lést.
Harold Prince var 91 árs þegar hann lést. Vísir/Getty
Harold Prince, margverðlaunaður bandarískur leikstjóri og framleiðandi, lést í Reykjavík í gær, 91 árs að aldri. Samkvæmt fréttum erlendra fjölmiðla var Prince á leið frá Evrópu til New York með flugi þegar hann veiktist skyndilega og var í kjölfarið úrskurðaður látinn á Íslandi. Ekki hefur verið tilgreint hvort Prince hafði dvalið hér á landi eða hvort hann var á ferðalagi frá meginlandi Evrópu.

Prince leikstýrði og framleiddi fjölda tímamótasýninga á Broadway-sviðinu. Þar má nefna Phantom of the Opera, Cabaret, Company og Sweeney Todd. Hann hlaut alls 21 Tony-verðlaun á ferlinum, m.a. í flokki framleiðenda, fyrir besta söngleikinn og heiðursverðlaun fyrir ævistörf sín.

Prince lætur eftir sig eiginkonu til 56 ára, Judy, tvö börn og þrjú barnabörn. Hér að neðan má horfa á viðtal við Prince þar sem hann ræðir farsælan feril sinn á Broadway-sviðinu.

Breska tónskáldið Andrew Lloyd Webber var á meðal þeirra sem minntust Prince með hlýju í gærkvöldi. „Ekki aðeins söngleikjaprinsinn, heldur hinn krýndi leiðtogi sem leikstýrði tveimur af bestu uppsetningum ferils míns, Evitu og Phantom,“ skrifaði Webber á Twitter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×