Erlent

Þrjá­tíu ára af­vopnunar­samningur Banda­ríkjanna og Rúss­lands úr sögunni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Vladimir Putin, forseti Rússlands, og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á G20 ráðstefnunni í Japan í síðasta mánuði.
Vladimir Putin, forseti Rússlands, og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á G20 ráðstefnunni í Japan í síðasta mánuði. getty/Kremlin Press Office
Bandaríkin og Rússland hafa sagt sig úr afvopnunarsamningi sem Ronald Reagan, Bandaríkjaforseti, og Mikhail Gorbachev, leiðtogi Sovétríkjanna, skrifuðu undir árið 1987. Fréttastofa breska ríkisútvarpsins greinir frá þessu á vef sínum.

INF-samningurinn takmarkaði vopnaeigu ríkja og bannaði eldflaugar staðsettar á landi sem drægju 500 til 5.500 kílómetra. Bandaríkin kenna Rússlandi um endalok samningsins en yfirvöld Bandaríkjanna og NATO sökuðu Rússland um að hafa brotið gegn skilmálum samningsins ítrekað undanfarin ár.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna tilkynnti í febrúar að Bandaríkin myndu draga sig úr samningnum ef Rússland myndi ekki uppfylla skilyrðin og gaf þeim frest til 2. ágúst.

Aðeins er einn afvopnunarsamningur í gildi á milli ríkjanna sem ber heitið nýi START. Hann var undirritaður árið 2018 og mun gilda til ársins 2021 ef hann verður ekki endurnýjaður. Sá samningur takmarkar fjölda langdrægra kjarnavopna og skotbúnaðar en Rússland og Bandaríkin eru tvö stærstu kjarnorkuveldi heims.

Margir eru uggandi yfir samningslokunum, þar á meðal Antonio Guterres, aðalframkvæmdarstjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði að lok samningsins væru „ómissandi hemill á kjarnorkustríði“ að hverfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×