Erlent

Reyna að svipta stjórnarandstæðinga forræði yfir syni sínum

Kjartan Kjartansson skrifar
Fjöldi manns hefur verið handtekinn á mótmælum í Moskvu undanfarnar tvær helgar. Yfirvöld veittu ekki leyfi fyrir þeim.
Fjöldi manns hefur verið handtekinn á mótmælum í Moskvu undanfarnar tvær helgar. Yfirvöld veittu ekki leyfi fyrir þeim. Vísir/EPA
Rússneskir saksóknarar krefjast þess nú að par verði svipt forræði yfir eins árs gömlum syni sínum vegna þess að þau voru viðstödd mótmæli sem yfirvöld gáfu ekki leyfi fyrir. Saka þeir fólkið um að hafa stefnt barninu í hættu með því að láta vin þeirra halda á því.

Dmitrí og Olga Prokazov segjast aðeins hafa átt leið hjá mótmælum stjórnarandstæðinga fyrir frjálsum kosningum í Moskvu 27. júlí. Þau hafi haft samúð með málstað mótmælendanna sem krefjast þess að frambjóðendum stjórnarandstöðunnar verði leyft að bjóða sig fram til borgastjórnar í haust. Á annað þúsund manns voru handteknir á mótmælunum.

Prokazov-hjónin segja að þau hafi á einhverjum tímapunkti leyft frænda Olgu að halda á dregnum þeirra. Það telja saksóknararnir tilefni til að svipta þau forræði yfir drengnum. Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC halda þeir því fram að lífi og öryggi drengsins hafi verið stefnt í voða. Foreldrarnir hafi „hagnýtt“ sér son sinn og misnotað réttindi sín sem foreldrar.

„Það hvarflaði ekki einu sinni að mér að við værum að gera nokkuð sem kæmist nálægt því að vera rangt,“ segir Dmitrí.

Saksóknararnir segja að rannsókn standi yfir á fleiri foreldrum sem tóku börn sín með á mótmæli síðustu tveggja helga.

Umboðsmaður barna í Moskvu segir óásættanlegt að saksóknarar noti börn til að kúga fólk í pólitísku samhengi. Mikaíl Fedotov, formaður mannréttindaráðs Rússlands, segir ennfremur að fordæmið sem sett yrði með málinu gegn Prokazov-hjónunum gæti reynst höfuðverkur fyrir foreldra sem láta barnapíur, afa og ömmur eða aðra gæta barna sinna.


Tengdar fréttir

Meira en þúsund hand­teknir í Moskvu

Lögreglan í Moskvu hefur handtekið meira en þúsund manns sem söfnuðust saman á fjöldafundi til að mótmæla framgöngu stjórnvalda þar í landi.

Nálægt 1.400 handteknir í gær eftir mótmæli í Moskvu

Aðgerðir yfirvalda gegn stjórnarandstæðingum hófust áður en mótmælin hófust í gær. Stjórnarandstöðuleiðtoginn Alexei Navalny var handtekinn síðasta miðvikudag og dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir að boða til mótmælanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×