Erlent

Meira en þúsund hand­teknir í Moskvu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mótmælendur handteknir í Moskvu.
Mótmælendur handteknir í Moskvu. getty/Sefa Karacan
Lögreglan í Moskvu hefur handtekið meira en þúsund manns sem söfnuðust saman á fjöldafundi til að mótmæla framgöngu stjórnvalda þar í landi. Þetta eru ein stærstu mótmæli í Rússlandi svo árum skipti.

Mótmælendur voru handteknir fyrir utan ráðhús borgarinnar þar sem mótmælin fóru fram. Mótmælendur söfnuðust saman þar fyrir utan til að krefjast þess að frambjóðendur stjórnarandstöðunnar fái að bjóða sig fram í stjórn borgarinnar.

Sjá einnig: 800 stjórnarandstæðingar handteknir í Moskvu

Yfirvöld segja 1.074 einstaklinga hafa verið handtekna en eftirlitsmenn með mótmælunum segja það hafa verið rúmlega 1.100 manns.

Borgarstjóri Moskvu, Sergei Sobyanin, segir mótmælin „öryggis ógn,“ og lofar að tryggja frið í borginni.

Á miðvikudag var leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Alexei Navalny, sem er hávær gagnrýnandi Vladmirs Putins, forseta landsins, settur í 30 daga fangelsi vegna þess að hann hvatti til mótmælanna sem ekki höfðu leyfi frá borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×