Enski boltinn

Tottenham og Man. Utd sögð hafa áhuga á Coutinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philippe Coutinho vann Copa America með Brasilíu í sumar.
Philippe Coutinho vann Copa America með Brasilíu í sumar. Getty/Chris Brunskill
Framtíð Philippe Coutinho er enn í óvissu en Barcelona leitar nú að félagi sem vill taka við Brasilíumanninum á láni.

Það er ekki pláss fyrir Philippe Coutinho hjá Börsungum í vetur og langlíklegast að hann endi í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Það er áhugi annars staðar frá en Barcelona vill helst sjá hann í Englandi.

Philippe Coutinho vildi eflaust helst komast aftur til Liverpool en engar líkur eru á því að hann endi aftur á Anfield.





Erlendir fréttamiðlar segja að tvö ensk félög hafi mestan áhuga á að fá Philippe Coutinho til sín en það eru Tottenham og Manchester United og að Barcelona hafi boðið báðum félögum leikmanninn. ESPN segir frá áhuga Tottenham og United en Daily Express frá áhuga Manchester United.

Arsenal var orðað við Coutinho en það virðist hafa vera algjör tilbúningur hjá blaðamönnum. Arsenal hefur þvertekið fyrir þann orðróm.

Philippe Coutinho þekkir vel til knattspyrnustjóra Tottenham því hann spilaði fyrir Mauricio Pochettino hjá Espanyol. Coutinho lýsti því líka yfir í vetur að hann myndi aldrei spila fyrir Manchester United af virðingu fyrir Liverpool.





Það er margt í gangi hjá Tottenham en til að liðið taki við Philippe Coutinho þá þarf væntanlega  Christian Eriksen að fara og kaupin á þeim Giovani Lo Celso og Bruno Fernandes að detta upp fyrir.

Eins og hjá þessum stórstjörnum á Spáni þá eru launin líka vandamál en Philippe Coutinho fær 290 þúsund pund í vikulaun hjá Barcelona.

Philippe Coutinho hagar sér þó enn eins og leikmaður Barcelona því hann flaug með liðinu til Miami í Bandaríkjunum þar sem liðið er í æfingaferð. Liðið mætir síðan Napoli á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×