Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Valur - Fylkir 1-0 | Meistararnir ekki tapað deildarleik í tæpa tvo mánuði

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
vísir/bára


Valsmenn eru komnir í Evrópusæti eftir 1-0 sigur á heimavelli gegn Fylki. Valsmenn komust yfir í fyrri hálfleik og þrátt fyrir slakan seinni hálfleik náðu þeir að halda í 3 stig í kvöld. 

 

Fylkismenn áttu erfitt í byrjun leiks og náðu ekkert að halda boltanum. Það gæti vel verið að það hafið verið upplagið en Valsmenn náðu að skapa sér nokkur góð færi strax. Sigurður Egill Lárusson skoraði snemma leiks mark sem var dæmt af vegna rangstöðu þar sem munaði mjóu. Patrick Pedersen kom Val yfir í lok fyrri hálfleiks eftir glæsilega fyrirgjöf frá Andra Adolphssyni. 

 

Fylkismenn breyttu til í seinni hálfleik og náðu að halda boltanum betur. Þeir áttu erfitt með að brjóta niður vörn Vals. Besta færið þeirra kom eflaust eftir að Ragnar Bragi Sveinsson lék á tvo varnarmenn Vals og skaut síðan í slánna. 

 

Fylkismenn fóru mikið ofar á völlinn undir lokin og fóru að skilja eftir sig pláss. Valsmenn fengu þá nokkrar margar góðar leikstöður í skyndisóknum en náðu ekki að gera dauðafæri úr því. Sigurður Egill Lárusson hefði mögulega átt að fá víti eftir skyndisókn undir lokinn þar sem Hákon Ingi fór mögulega eitthvað aftan í hann. Pétur Guðmundsson dómari var hinsvegar ósammála og dæmdi ekki neitt. Valdimar Þór Ingimundarsson var nálægt því að jafna í uppbótartíma með skalla í slánna eftir skógarhlaup frá Antoni Ara. 

 

Af hverju vann Valur?

Hvorugt liðið fékk mikið af færum en Valsmenn náðu að nýta eitt af þeim. Valsmenn áttu alveg skilið að vera yfir í hálfleik en seinni hálfleikurinn var ekki upp á marga fiska.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Andri Adolphsson var hættulegasti maður vallarins í kvöld. Hann lagði upp markið og skapaði mikið fyrir Val sóknarlega. Valsmenn voru mjög þéttir varnarlega og má þá helst nefna eins og oft áður Hauk Pál, Eið Aron og Sebastian Hedlund. Þessir þrír hafa oft átt stóran hlut í að Valsmenn halda hreinu og leikur kvöldsins var engin undantekning.

 

Sam Hewson og Helgi Valur stýrðu miðjunni í seinni hálfleiknum og voru bestu menn Fylkis í leiknum. 

 

Hvað gekk illa?

Aðalþjálfarar liðanna komu hvorugir í viðtöl í kvöld sem telst dálítið sérstakt. Ekki var gefin mikil ástæða fyrir því af hverju þeir komu ekki en aðstoðarþjálfararnir eru skemmtilegir sem bjargar þessu.

 

Valsmenn áttu erfitt með að halda boltanum í kvöld og það sást að það vantaði Lasse Petry á miðsvæðinu. Ólafur Karl átti mjög erfitt í dag og tók sjaldan réttar ákvarðanir þegar hann fékk boltann í lappir. Kristinn Freyr átti sömuleiðis erfitt á köflum með að spila neðarlega á miðjunni en hann er vanalega sóknarsinnaður miðjumaður. 

 

Hvað gerist næst?

Valsmenn fá FH í heimsókn á sunnudaginn klukkan 20.00 í leik umferðarinnar. Sá leikur hefur gríðarlegar afleiðingar uppá hvaða lið fara í Evrópukeppnina á næsta ári.

 

Fylkismenn fá Grindavík í heimsókn á mánudagskvöldið þar sem þeir munu ákveða sig hvort þeir ætli að vera í Evrópu baráttu eða fallbaráttu.

 

 

Sigurbjörn: Ánægður að strákarnir héldu út

Valsmenn unnu Fylki í kvöld 1-0 á heimavelli í 15. umferð Pepsi Max deild karla. Sigurbjörn Hreiðarsson aðstoðarþjálfari Vals kom í viðtal eftir leik og var sáttur að landa þremur stigum. 

 

Valsmenn eru núna ekki búnir að tapa deildarleik síðan 19. júní þegar þeir misstu niður 2-0 forystu í Frostaskjóli. Það er ansi góður árangur hjá þeim eftir hörmulega byrjun á keppninni. 

 

„Við erum ánægðir með það. Okkur hefur gengið bara fínt undanfarið.“

 

Valsmenn byrjuðu leikinn vel en féllu mikið niður í seinni hálfleik og leyfðu Fylkismönnum að halda boltanum. Það var ekki uppleggið en það heppnaðist þó hjá þeim í kvöld. 

 

„Við vorum ekkert sérstakir hérna í seinni hálfleik það er alveg rétt. Fyrri hálfleikurinn var fínn. Við vissum að þeir kæmu ofar í seinni hálfleiknum og þeir voru sprækir. Við vissum líka að við myndum fá fullt af opnunum og við fengum þær alveg.“ 

 

Valsmenn nokkrar frábærar leikstöður í seinni hálfleik eftir að Fylkismenn fóru í 3 manna vörn en voru ekki að nýta þær mjög vel. 

 

„Við vorum bara klaufar að nýta ekki betur sénsana sem við fengum þegar við brunuðum á meðan þeir voru opnir, að reyna að jafna. Við hefðum alveg getað skorað fleiri mörk en þetta fór 1-0 og við tökum því í dag.“

 

Kaj Leo í Bartalsstovu kom inná undir lok leiksins og fékk nokkrar af þessum góðu leikstöðum. Hann var í báðum tilvikum í kjörstöðum til að gefa lykilsendingu en tók margar snertingar áður en sóknirnar runnu út í sandinn.

 

„Stundum er þetta bara svona. Hann er nýkominn inná hérna og hann hefði getað gert betur stundum en er nýkominn inná eins og ég segi. Það gengur ekki allt upp í þessu en hann reyndi og við viljum það. Það breytir bara engu núna.“

 

Valsmenn spiluðu 4 evrópuleiki í Júlí sem þétti leikjaprógrammið þeirra heldur betur. Nú eru þeir hinsvegar bara að spila í Pepsi Max deildinni en þeir duttu út úr bikarnum í 32-liða úrslitum á móti FH. 

 

„Það er búin að vera törn á okkur og fínt að landa þessu gegn spræku og kraftmiklu Fylkisliði. Það er erfitt að eiga við þá og ég er bara ánægður með að strákarnir héldu út.“

 

Ólafur Ingi: Höfum fulla trú á því sem við erum að gera

„Þetta var sérstaklega svekkjandi eftir seinni hálfleikinn. Í fyrri hálfleiknum lágum við aðeins meira tilbaka og þeir voru meira með yfirhöndina. Það var kannski bara uppleggið okkar, við fáum á okkur klaufalegt mark,“ sagði Ólafur Ingi Stígsson aðstoðarþjálfari Fylkis eftir leik kvöldsins.

 

Seinni hálfleikurinn hjá Fylki var mikið betri en sá fyrri en þeir komu boltanum hinsvegar ekki yfir línuna. 

 

„Í seinni hálfleik hefðum við átt að jafna allavega. Við fáum gott færi og vorum óheppnir að nýta það ekki. Við áttum bæði skot og skalla í slánna.“ 

 

Daði Ólafsson og Ólafur Ingi Skúlason lykilmenn hjá Fylki voru í leikbanni í kvöld. Ólafur ætlar ekki að nota það sem afsökun í kvöld hinsvegar.

 

„Það koma bara menn inn og þeir sýndu það að þeir geta svo sannarlega staðið undir þessu. Það er alltaf vont að missa góða menn en það koma góðir í staðinn.“

 

Fylkismenn eru búnir að tapa tveimur leikjum í röð og komnir nær fallsæti en Evrópusæti. 

 

„Við höfum fulla trú á því sem við erum að gera. Vonandi fer það að skila okkur einhverjum stigum. Þetta er svolítið óútreiknanleg deild. Það er allt undir í öllum leikjum.“  

 

Emil Ásmundsson kom í kvöld aftur eftir löng meiðsli. Hann fór síðan útaf á 55. mínútu en hann ætti ekki að vera lengi frá.

 

„Hann fékk aðeins slink á sig. Ekkert alvarlegt og þá er bara skynsamlegt að fara útaf og fá annan í staðinn.“ 

 

Ragnar Bragi:Þeir eru búnir að vera í basli með formið á sér

„Ég er bara ótrúlega svekktur að ná ekki í stig miðað við alla vinnuna sem við lögðum í þennan leik. Það tekur rosalega á að liggja svona svakalega tilbaka. Þess og heldur er enn meira svekkjandi að taka ekki allavega stig úr þessum leik,“ sagði Ragnar Bragi Sveinsson leikmaður Fylkis að leik loknum. 

 

Fylkismenn gerðu lítið sóknarlega í seinni í hálfleik en áttu nokkur ágætis færi í seinni hálfleik. Það gekk ágætlega hjá þeim að verjast en Valsmenn fengu þó fleiri færi en þetta sem Ragnar Bragi kallar skítamark.

 

„Þetta var ekkert endilega lélegur fyrri hálfleikur við ætluðum bara að liggja tilbaka. Við ætluðum bara að verja okkar mark sem gekk þokkalega vel í fyrri hálfleik nema þetta skítamark úr snöggri aukaspyrnu.“  

 

Valsmenn eru búnir að eiga það mikið til í sumar að missa niður forystur og fá mörk á sig undir lok leikja. Einhverjir spekingar vilja meina að formið sé ekki nógu gott hjá þeim, þar á meðal Ragnar Bragi.

 

„Þetta var bara okkar upplegg að liggja tilbaka fyrstu 60 mínúturnar og setja síðan pressu á þá þegar þeir eru orðnir þreyttir. Þeir eru búnir að vera í basli með formið á sér.“ 

 

Fylkismenn eru nú búnir að tapa tveimur leikjum í röð og þar af leiðandi farnir að fjarlægjast sína Evrópudrauma. Það er hinsvegar stutt á milli og 7 leikir eftir af tímabilinu.

 

„Af sjálfsögðu þetta er bara ótrúleg deild. Það er rosalega stutt á milli eins og allir vita. Við erum núna búnir að tapa tveimur í röð en ef maður vinnur tvo í röð er maður fljótur upp töfluna líka þannig að við látum ekki deigan síga.“

 Haukur Páll: Sætt að vinna í dag


„Þetta var erfitt en mér fannst við spila mjög góðan fyrri hálfleik. Við vorum aðeins aftar í seinni sem var kannski ekki það sem við ætluðum okkur. Við hefðum mátt passa boltann betur og spila betur honum betur því það voru möguleikar hérna í seinni hálfleik. En ég kvarta ekki yfir 1-0 sigri, “ sagði Haukur Páll Sigurðsson fyrirliði Vals eftir leik kvöldsins.

 

Valsmenn duttu út úr Evrópudeildinni á fimmtudaginn eftir 4-0 tap í Búlgaríu á móti Ludogorets Razgrad. Það var hinsvegar einn leikur á milli Evrópuleikjanna tveggja en Haukur var þó ánægður að vinna aftur.

 

„Skagaleikurinn var þarna á milli og það var góður sigur. Eins og þú segir var þetta erfið ferð til Búlgaríu. Það er mjög sætt að vinna í dag, svo það er svoleiðis.“

 

 

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.