Íslenski boltinn

Heiðar: Við ætlum að lenda í topp þremur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Heiðar Ægisson fyrr í sumar.
Heiðar Ægisson fyrr í sumar. vísir/daníel
„Góð þrjú stig, loksins vinnum við. Höfum verið að gera full mikið af jafnteflum í undanförnum leikjum svo það var gott að fá loksins þrjú punkta,“ sagði alsæll Heiðar Ægisson að loknum 2-1 sigri Stjörnunnar á Víkingum í Pepsi Max deild karla í kvöld.

 

Það hefur verið mikið álag á Stjörnuliðinu undanfarnar vikur en liðið hefur leikið fjóra Evrópuleiki á á skömmum tíma sem og að vera spila í Pepsi Max deildinni. Heiðar viðurkenndi að það álag hefði sést á liðinu þegar líða fór á leikinn í kvöld.

„Það var alveg farið að taka sinn toll að spila tvo leiki í viku en það er alltaf gaman í Evrópu og við stefnum á það aftur, að komast í Evrópu á næsta ári þar að segja.“

 

Sigur kvöldsins þýðir að Stjarnan situr nú í 3. sæti deildarinnar með 24 stig þegar 15 umferðir eru búnar. Deildin er einkar jöfn en Breiðablik er í 2. sæti með 26 stig og Valur í því 4. með 23 stig. Þá eru ÍA og FH bæði með 22 stig. Heiðar er samt ekkert að fara í felur með markmið Stjörnunnar.

 

„Við ætlum að lenda í topp þremur efstu sætum deildarinnar. Það er markmiðið og þá komumst við í Evrópu. Það er ekkert flóknara en það,“ sagði Heiðar að lokum.

 

Heiðar átti góðan leik en hann kom að báðum mörkum Stjörnunnar í kvöld. Hann lék á hægri vængnum í dag en hann hefur aðallega leikið sem hægri bakvörður eða miðjumaður í gegnum tíðina.

Eftir frammistöðuna í dag verður erfitt fyrir Rúnar Pál, þjálfara Stjörnunnar, að færa Heiðar aftur niður í bakvörð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×