Erlent

Biður borgarbúa New York af einlægni að fara varlega næstu daga

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar
Vísir/AP

Borgarstjóri New York biður af mikilli einlægni borgarbúa og ferðamenn að fara varlega næstu daga þar í borg vegna hitabylgju sem gengur yfir. Hitabylgjan nær einnig til Washington og Boston í Bandaríkjunum sem og hluta Kanada.

Borgarstjóri New York borgar hefur biðlað til fólks að taka hitabylgunni alvarlega. Á Twitter síðu sinni biður hann alla um að hlusta á aðvörun sína og taka henni grafalvarlega. Þar bendir hann fólki einnig á að halda sig inn og passa upp á að drekka nægilega mikinn vökva.

Í New York hafa 500 svokallaðar kælistöðvar verið opnaðar en þær veita skugga og bjóða fólki upp á læknisaðstoð sé þess þörf. Einnig er þar skuggi, boðið upp á vatn og salernisaðstöðu. Stöðvarnar eru sérstaklega ætlaðar heimilislausum öldruðum og þeim sem ekki eru með loftkælingu.

Hitabylgjan gæti haft áhrif á um 200 milljónir manna og á sumum stöðum Bandaríkjunum er gert ráð fyrir að hiti fari upp í 38 stig eða ofar. Samkvæmt veðurfræðingum í Kanada gæti tilfinning verið sú að hiti í Torontó væri um 40 stig, ef rakastigið er tekið með og í Montreal 45 stig einnig með raka.

Á öllum þessum stöðum má búast við að hitabylgjan nái hámarki um helgina og fer svo örlítið kólnandi þegar líður á vikuna.

Sérfræðingar tengja tíðari hitabylgjur við loftslagsbreytingar á undanförnum árum. Júní er talinn heitasti mánuður sem mældur hefur verið um allan heim en meðalhitinn var 16,4 stig, samkvæmt nýjum gögnum.
 

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.