Erlent

Afgönsk stjórnvöld vilja að Trump skýri ummæli um gereyðingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Á fundi með Imran Khan, forsætisráðherra Pakistans, fullyrti Trump að hann gæti unnið stríðið í Afganistan á tíu dögum með því að láta stórum sprengjum rigna yfir landið.
Á fundi með Imran Khan, forsætisráðherra Pakistans, fullyrti Trump að hann gæti unnið stríðið í Afganistan á tíu dögum með því að láta stórum sprengjum rigna yfir landið. Vísir/EPA

Stjórnvöld í Kabúl hafa krafið Donald Trump Bandaríkjaforseta um skýringar á ummælum hans um að hann gæti unnið stríðið í Afganistan á tíu dögum með því að „má Afganistan af yfirborði jarðar“ í gær. Indverjar hafa einnig borið til baka fullyrðingu Trump um að Modi forsætisráðherra hafi beðið hann um að miðla málum í Kasmír.

Bæði ummælin lét Trump falla eftir fund með Imran Khan, forsætisráðherra Pakistans, í Hvíta húsinu í gær. Þar var hann meðal annars spurður út í gang viðræðna við talibana og stríðið í Afganistan.

„Ef við vildum há stríð í Afganistan og sigra gæti ég unnið stríðið á viku. Ég vil bara ekki drepa tíu milljónir manna,“ sagði bandaríski forsetinn sem útskýrði síðar að hann hefði áætlanir um að láta gríðarstórum sprengjum rigna yfir Afganistan sem myndu gereyða landinu.

„Ég vil ekki fara þá leið,“ sagði Trump.Þær fullyrðingar Bandaríkjaforseta hugnuðust ekki stjórnvöldum í Afganistan. Í yfirlýsingu frá forsetahöll landsins sagði að afganska þjóðin myndi aldrei leyfa erlendu veldi að ákveða örlög þess, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Á fundinum í Hvíta húsinu lagði Khan til að Trump miðlaði málum í Kasmírhéraði þar sem Indverjar og Pakistanir hafa lengi eldað grátt silfur saman.

Trump tók vel í þá hugmynd og fullyrti að Narendra Modi, forsætisráðherra, hefði beðið sig um að gera það. Talsmaður utanríkisráðuneytisins Indlands hafnaði þeirri fullyrðingu snarlega á Twitter. Modi hefði ekki sett fram neina slíka beiðni til Trump, að sögn Washington Post.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.