Íslenski boltinn

HK í öðru sæti yfir besta árangurinn í síðustu fimm leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
HK-ingar fagna einum af sigrum sínum að undanförnu en þarna unnu þeir nágranna sína í Breiðablik og það í Smáranum.
HK-ingar fagna einum af sigrum sínum að undanförnu en þarna unnu þeir nágranna sína í Breiðablik og það í Smáranum. Vísir/Bára

HK-ingar unnu í gær 2-0 sigur á FH-ingum í Kórnum og fögnuðu þar með þriðja sigri sínum í röð í Pepsi Max deild karla í fótbolta.

HK-liðið er nú komið með 17 stig í deildinni og er í áttunda sæti deildarinnar þegar þrettán umferðir eru af baki.

HK-ingar fengu samt aðeins fimm stig út úr fyrstu átta leikjum sínum í sumar og sátu þá í fallsæti eftir 2-1 tap á móti Víkingum í sannkölluðum sex stiga leik 14. júní síðastliðinni.

Brynjari Birni Gunnarssyni, þjálfara HK og aðstoðarmönnum hans tókst þá að snúa við blaðinu og sjálfstraust HK-liðsins hefur vaxið með hverjum leiknum að undanförnu.

HK vann 2-0 útisigur á ÍA í slag nýliðanna í næsta leik og hefur nú unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum. Liðið hefur einnig unnið Breiðablik, KA og nú síðast FH.

Aðeins leikurinn á móti Val tapaðist en þar voru HK-ingar yfir í 25 mínútur og fengu á sig sigurmark á fimmtu mínútu í uppbótatíma.

Það er aðeins topplið KR sem hefur náð í fleiri stig í síðustu fimm leikjum sínum af liðum Pepsi Max deildarinnar og Vesturbæingar hafa aðeins einu stigi meira en HK á þessum tíma.

HK er líka með plús fimm mörk í markatölu á þessum tíma og eru þar með bestu markatöluna ásamt KR-liðinu. Hér fyrir neðan má sjá bestan árangur liðanna í undanförnum fimm leikjum sínum.

Besti árangur liða í Pepsi Max deild karla í síðustu fimm leikjum:
1. KR 13 stig (Markatala: +5)
2. HK 12 stig (+5)
3. Valur 10 stig (+3)
4. Stjarnan 8 stig (+4)
5. Fylkir 7 stig (-2)
6. FH 7 stig (-1)
7. Breiðablik 7 stig (+1)
8. Víkingur 6 stig (0)
9. ÍA 6 stig (0)
10. Grindavík 4 stig (-1)
11. KA 1 stig (-5)
12. ÍBV 0 stig (-9)Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.