Innlent

Konan sem vistuð var í fangageymslu í nótt vegna brunans er ekki leigutaki íbúðarinnar

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Vel gekk að slökkva eldinn og breiddi hann ekki úr sér í aðrar íbúðir.
Vel gekk að slökkva eldinn og breiddi hann ekki úr sér í aðrar íbúðir. Vísir/aðsend

Kona sem vistuð var í fangageymslu í nótt, vegna elds sem kom upp í stúdentaíbúð að Eggertsgötu, er ekki leigutaki íbúðarinnar. Upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar stúdenta segir að riftun á leigusamningi komi til greina hafi leigutaki íbúðarinnar framleigt hana andstætt reglum stofnunarinnar.

Töluverðar skemmdir urðu á íbúð að Eggertsgötu þegar eldur kom þar upp um kvöldmatarleytið í gær. Vel gekk að slökkva eldinn og breiddi hann ekki úr sér í aðrar íbúðir. Upptök hans og staðsetning er óljós.

Að sögn Jóhanns Karls Þórissonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns, var aðili í íbúðinni þegar eldur kom þar upp. Var hann vistaður í fangageymslu í nótt og verður yfirheyrður upp úr hádegi.

Slökkvistarfi lauk klukkan hálf átta í gærkvöld. fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Íbúðin sem um ræðir er stúdentaíbúð sem er í eigu Félagsstofnunar stúdenta en þar búa einungis nemendur Háskóla Íslands. Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi stofnunarinnar, staðfestir að sá sem gistir fangageymslu sé ekki leigutaki íbúðarinnar.

„Nei þetta er ekki leigutakinn þannig að það liggur fyrir að aðilinn sem var í húsnæðinu er ekki sá sem leigði húsnæðið hjá okkur,“ segir Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar stúdenta.

Þá séu dæmi um að leigutakar framleigi íbúðir andstætt reglum Félagsstofnunar stúdenta en slíkt er algengara á sumrin. Þó sé óljóst hvort staðan sé sú í þessu tilviki.

Rebekka Sigurðardóttir. FBL/Ernir

Viðurlögin eru skýr

„Við vitum náttúrulega ekki með hvaða hætti þetta er tilkomið en það kemur algjörlega skýt fram í leigusamningi hjá okkur að það má hvorki lána né framleiga húsnæðið nema með okkar leyfi. Viðurlögin við þessu eru mjög skýr það er bara tafarlaus riftun þegar um slíkt ræðir,“ segir Rebekka. 

„Við reynum að brýna fyrir fólki og hvetja íbúa til að láta okkur vita ef þeir átta sig á því að það eru aðrir en leigutakar sem búa í húsnæðiðnu, það eru náttúrulega ríkar ástæður fyrir því að við leggjum mikla áherslu á að fá slíkar upplýsingar og bregðumst mjög hart við svona brotum.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.