Fótbolti

Bandarísku þingkonurnar leggja fótboltakonunum lið í launabaráttunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Megan Rapinoe í skrúðgöngunni í gær.
Megan Rapinoe í skrúðgöngunni í gær. Getty/ John Lamparski
Bandaríska kvennalandsliðið í fótbolta fór fylktu liði um Manhattan í gær og fagnaði heimsmeistaratitli sínum með löndum sínum og öðrum í New York borg. Þær fengu allar afhentan lykil af New York en fengu auk þess góðar fréttir úr bandaríska þinginu.

Bandaríska liðið varð á dögunum heimsmeistari í fjórða sinn en liðið hefur unnið tvær síðustu heimsmeistarakeppnir. Bandaríkin vann 2-0 sigur á Evrópumeisturum Hollands í úrslitaleiknum í Lyon á sunnudaginn en með þessum tveimur mörkum sló bandaríska liðið markametið á HM.

Það er minna að frétta af karlalandsliði Bandaríkjanna sem tapaði seinna sama kvöld fyrir Mexíkó í úrslitaleik Gullbikarsins. Þrátt fyrir að bandaríska kvennalandsliðið sé sigursælasta kvennalandslið sögunnar og karlaliðið hafi ekki komist inn á síðasta heimsmeistaramót þá fá landsliðsmennirnir enn mun meiri pening frá bandaríska knattspyrnusambandinu en landsliðskonurnar.





Megan Rapinoe og félagar í bandaríska landsliðinu hafa ekki aðeins talað gegn þessu misrétti heldur fóru þær alla leið og kærðu bandaríska knattspyrnusambandið fyrir mismunun á milli kynja.

Bandaríska knattspyrnusambandið borgar konunum aðeins 38 prósent af því sem það borgar körlunum.

Velgengi kvennalandsliðsins er líka að skila bandaríska sambandinu meiri tekjum. Á árunum 2016 til 2018 fékk sambandið 50,8 milljónir dollara í tekjur af leikjum kvennalandsliðsins á móti 49,9 milljónum dollara í tekjur af leikjum karlaliðsins. Eftir þá athygli sem kvennaliðið fékk í sumar og annan heimsmeistaratitil þess í röð eru þessar tölur hjá konunum aðeins að fara að hækka.

En aftur af góðu fréttunum. Bandarísku þingkonurnar eru búnar að leggja bandarísku fótboltakonunum lið í baráttunni. Þingkonurnar ákváðu líka að nota daginn í gær, þegar mikil athygli var á bandarísku landsliðskonunum í öllum fjölmiðlum landsins, til að leggja fram nýtt frumvarp.

Frumvarpið heitir „Athletics Fair Pay Act“ eða „Lög um sanngjörn laun íþróttafólks“ og nær til alls íþróttafólks Bandaríkjanna hvort sem þau séu bara áhugafólk eða á leið á næstu Ólympíuleika. Þingkonurnar Dianne Feinstein frá Kaliforníu og Patty Murray frá Washington kynntu frumvarpið í gær en þær eru báðar í Demókrataflokknum.

Verði þetta nýja frumvarp þingkvennanna samþykkt þá verður það ólöglegt hjá bandarísku íþróttasamböndunum að borga íþróttamönnum sínum mismikið eftir kyni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×